„Meiri­háttar svalt,“ „LOKS­INS eitt­hvað skemmti­legt!...orðinn hund­leiður á þjóðdöns­um og póli­tísk­um rétt­trúnaði“ og „þeir eru al­veg farnir út af sporinu“ er meðal þess sem danska ríkis­út­varpið hefur eftir aðdáendum Euro­vision-keppninnar í Ísrael um frammi­stöðu Hatara í fyrri undan­riðlinum í gær.

DR fjallar ítar­lega um Hatara á vef sínum í dag þar sem segir meðal annars að at­riðið sé al­gjör­lega „klikkað“. Það er ef­laust flestum kunnugt að Hatari komst á­fram í gær eftir glæsi­lega frammi­stöðu í Expo-höllinni í Tel Aviv. Munu þeir því taka þátt á úr­slita­kvöldinu á laugar­dag en síðustu ár hafa verið mögur. Ís­land hefur nefni­lega ekki tekið þátt í úr­slitunum síðan árið 2014 þegar Pollapönk tók þátt.

Ole Tøpholm, hjá DR1, gengur svo svo langt að segja að þeir Matthías, Klemens og Einar, sem saman mynda hljóm­sveitina Hatara, toppi ó­frýni­legu skrímslin frá Finn­landi, Lordi, sem báru sigur úr býtum í keppninni árið 2006.

Haft er eftir Klemens að bandið beiti sér gegn upp­gangi popúl­isma í Evrópu. At­riðið dragi upp mynd af dystópískum heimi sem bíði handan við hornið ef við finnum ekki frið og lærum að elska hvert annað. Sá heimur gæti orðið að raun­veru­leika með sigri hatursins.

Leonora hin danska flytur lagið Love is Forever fyrir hönd Danmerkur í ár.
Fréttablaðið/Getty

Með rauðar kinnar undir leðurgrímum

Sjón­varps­maðurinn Gísli Marteinn Baldurs­son ræðir einnig við DR og fer þar yfir vin­sældir Hatara á Ís­landi. Hópinn segir hann höfða til ó­líkra sam­fé­lags­hópa. Í kringum Söngva­keppni sjón­varpsins hafi fjöldi barna klætt sig upp sem „litla Hatara“.

Þá ræðir DR við Leonoru, danska keppandann í ár sem flytur lagið Love is For­e­ver. Hún hrósar Hatara og segist líta á þá sem vini sína. Hún hafi til að mynda rætt við Einar, sem ber gaddaleður­grímuna, sem sýndi henni meðal annars mynd af dóttur sinni.

Einnig segir hún frá því að í undir­búningnum fyrir keppnina hafi hún og Hatari deilt búningsherbergi. Hún hafi þar gengið inn á þá þegar þeir voru að festa á sig leður­ólarnar og grímurnar. Leonora segir þá hafa roðnað við það.

„Ég held að þeim hafi þótt þetta mun vand­ræða­legra en mér,“ segir hún.