Ég segi stundum að varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins sé eins og hátæknisjúkrahús fyrir þjóðminjar, þar sem þarf að vera tæknilega rétt aðstaða til að tryggja varðveislu viðkvæmra minja, með góðu aðgengi til rannsókna og þvervísindalegrar samvinnu. Þar þarf að vera gjörgæsludeild fyrir viðkvæmustu minjarnar, röntgen, rannsóknastofa til forvörslu, kælir og frystir, og loftstýrð rými fyrir mismunandi minjar úr ólíkum efnum, því suma gripi þarf að meðhöndla sérstaklega og veita ákveðna meðferð, sérstaklega forngripi sem finnast við uppgröft og koma upp úr jörðinni. Þannig erum við með sjö rými fyrir mismunandi minjar; sumar þurfa að vera í þurru og aðrar röku loftslagi, flestar í hárnákvæmu hitastigi og sérhæfðir starfsmenn meðhöndla gripina á viðeigandi hátt,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.

Þjóðminjasafn Íslands er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir varðveislu- og rannsóknamiðstöðina, sem og útgáfu vefritsins Handbók um varðveislu safnkosts.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Þjóðminjasafnið, sem er höfuðsafn á sviði menningarminja og ætlað að vera leiðandi fyrir safnastarf um allt land á sínu sviði. Margir hafa lagt hönd á plóg og reynsla og þekking starfsmanna Þjóðminjasafns verið grundvöllur árangurs. Það má segja að Þjóðminjasafnið sé fyrsta safnið sem kemur öllum sínum safnkosti í örugga höfn, við kjöraðstæður. Með því setjum við ný viðmið í safnastarfi á Íslandi, ekki bara fyrir okkur sem störfum á Þjóðminjasafninu, heldur málaflokkinn í heild og erum að bæta starfsaðstöðu fyrir starfsfólk, fræðimenn, nemendur, fornleifafræðinga og aðra, sem þurfa að leita í þeim heimildabrunni sem safnkosturinn er,“ útskýrir Margrét.

Í umsókn valnefndar segir að „varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands, ásamt Handbók um varðveislu safnkosts, sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.“

Margrét segir áratuga vinnu liggja að baki miðstöðinni, sem var vígð 5. desember í fyrra.

„Heimildabrunnur Þjóðminjasafnsins hefur orðið til á hálfri annarri öld, enda stofnað 1863. Við leggjum ríka áherslu á samvinnu við önnur söfn og búum nú í haginn, með aðstöðu til að varðveita allan safnkost og þjóðminjar í vörslu Þjóðminjasafnsins; jarðfundna gripi og muni sem hafa varðveist frá landnámi til okkar tíma, Ljósmyndasafn Íslands og 65 hús sem eru á ábyrgð Þjóðminjasafnsins um land allt.“

Á sýningunni Saga úr jörðu má sjá hvernig vísindamenn hafa komið með tilgátu um útlit landnámskonunnar Sögu með því að greina hauskúpu hennar. FRÉTTBLAÐIÐ/ERNIR

Eins og mublur í náttúrunni

Með tilkomu Varðveislu- og rannsóknarmiðstöðvar hefur orðið gjörbreyting á aðstöðu til varðveislu og aðgengi að safnakosti Þjóðminjasafni Íslands í þágu rannsókna, menntunar og miðlunar. Skráning og vistun er grundvöllur stefnumörkunar um söfnun til framtíðar og forsenda alls safnastarfs.

„Landsmenn mættu gefa minjavernd meiri gaum. Hún á mikið erindi við samtímann þegar við spekúlerum í lífsgæðum okkar og gildum, sjálfbærni, þróun og jafnvægi manns og náttúru. Þar hafa söfnin mikið að gefa,“ segir Margrét.

Hún tekur torfbæi í varðveislu Þjóðminjasafnsins sem dæmi.

„Torfbæir eru mannvirki sem hafa lifað af í náttúrunni og eru rannsóknarmiðstöðvar í sjálfu sér. Í þá var nýttur efniviður náttúrunnar í kring og þegar húsin voru yfirgefin urðu þau aftur að náttúru. Það er fróðlegt fyrir fólk að skoða þessa bæi og fá innsýn aftur í miðaldir, til dæmis á Keldum á Rangárvöllum og í Glaumbæ í Skagafirði. Þar eru húsin sprottin úr sínu nánasta umhverfi og ef bæir stóðu í námunda við eldfjöll voru þeir jafnan byggðir úr hraungrýti en torfi og sjávarbörðu grjóti á rigningarsvæðum við ströndina, eins og á Suðurlandi,“ upplýsir Margrét.

Hún segir gaman að eltast við menningararfinn og skilja samhengið.

„Að velta fyrir sér arkitektúr og fegurðarskyni ábúenda því margir torfbæir eru í laginu eins og fjöllin sem fólki fannst fegursta formið og skilaði sér í húsin. Allt á þetta erindi við okkur í dag og enn meira í framtíðinni þegar við förum að hugsa um arkitektúr og sjálfbærni, að nota efnivið sem mengar ekki né hefur truflandi áhrif á umhverfið. Allt eru þetta nútímalegar hugleiðingar um menningararfinn. Menningarminjar eru eins og mublur í náttúrunni. Þær spretta upp vegna mannvistar í umhverfinu og renna aftur saman við náttúruna þegar fólkið fer.“

Nýjasta húsið í safni Þjóðminjasafnsins er Galtafell í Hróarstungu, sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara.

„Við veljum með gagnrýnum augum það sem ber að varðveita því það þarf að hafa mikið heimildagildi og því fylgir mikil ábyrgð að taka við gripum og húsum til að varðveita. Galtafell er nú komið í okkar vörslu og við berum því ábyrgð á því eins og hverjum öðrum safngrip en leitum eftir stuðningi stjórnvalda til að geta hafið innviðauppbyggingu og veitt landsmönnum innsýn í sumarveröld Einars Jónssonar.“

Í dag opnar glæsileg sýning í tilefni af 90 ára afmæli Vigdísar forseta. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Beyglaður prjónn í dálæti

Margrét er menntaður fornleifafræðingur og stjórnsýslufræðingur og hefur verið safnstjóri í 30 ár. Hún vann á árum áður í heilan áratug að fornleifarannsóknum í Viðey.

„Ég á mér marga uppáhalds gripi á Þjóðminjasafninu. Það eru kjörgripir sem standa eins og verðir í gegnum Íslandssöguna en mér finnst ekki síður varið í hversdagsgripi eins og beyglaðan prjón sem alþýðukona notaði til að prjóna vettlinga. Það er magnað að sjá svo einfalda en forvitnilega gripi. Þeir gefa okkur innsýn í líf fátæks fólks sem fann leið til að bjarga sér.“

Margrét segir margt afar merkilegt koma í ljós við fornleifarannsóknir.

„Þar má nefna bláklæddu konuna sem eru leifar af kumli sem fannst í heiðinni gröf fyrir tæpri öld . Á hauskúpunni voru vefjaleifar en beinin voru geymd í áttatíu ár, þar til raunvísindin gerðu okkur kleift að greina þau. Þá sýndu niðurstöður vísindamanna hvenær og hvar hún var fædd, hvað hún borðaði, í hvaða fötum hún var, hvenær hún kom til Íslands og hvenær hún dó,“ segir Margrét og heldur áfram:

„Heimildabrunnurinn dýpkar með nýjum rannsóknaaðferðum. Fram að þessu gátum við ekki vitað með vissu að stúlkan fæddist á vesturströnd Bretlands fyrir árið 900, borðaði fisk og kjöt fyrstu sex æviárin en varð þá vannærð, líklega þegar hún sigldi til Íslands. Hún bjó svo á Íslandi og klæddist ullarfötum. Þetta vitum við með DNA- og ísótóparannsóknum sem ekki voru til áður. Við erum alltaf að skilja betur sögur og líf fólks fyrr á öldum og þar með okkur sjálf. Þess vegna skiptir máli að eiga svona frábæra aðstöðu til að rannsaka og varðveita gripi sem gefa okkur æ meiri upplýsingar með auknum rannsóknum.“

Margrét segir söguna skipta nútímafólk máli.

„Hún endurspeglar líf okkar og ræturnar sem við öll finnum fyrir og lærum af. Við viljum vekja börn til umhugsunar um neyslu nútímans, í samhengi við heimsmarkmiðin og út frá neyslu í gamla daga. Hvað átti einstaklingurinn þá, kannski kistil, ask og skeið? Börn verða hugsi þegar þau átta sig á því. Þetta er áhugaverður spegill þegar við tölum um naumhyggju, ekki síst nú þegar við hugsum um loftslagsbreytingar, þurfum að fara til baka og inn í kjarnann. Það getum við gert í söfnunum og hugleitt hver eru mín gildi og lífsviðhorf, og hvaða spor vil ég marka og skilja eftir mig.“

Margrét er spurð hvort Íslendingar fyrr á öldum hafi verið hamingjusamir.

„Það er erfitt að tala almennt um það. Lífsbaráttan var hörð og sorgin ekki langt undan. En fólk finnur gleði í hversdagsleikanum, það er mannlegt,“ svarar hún. „Maður sér merki þess í hversdagslegum, útskornum hlutum sem endurspegla sköpunargleði og þörf fyrir að hafa fagurt í kringum sig, þótt látlaust sé. Í rúnapinna frá tíundu öld var skorið út orðið ást. Þar fáum við innsýn í tilfinningalíf. Í mörgum útskornum kistum eru skilaboð sem varða kærleika og trú sem segir til um eitthvað sem við öll getum tengt við. Í þessu samhengi er gaman að fara í safn og finna tengingu sína við fortíðina í stað þess að líta á hana sem fjarlægan hlut frá annarri vídd. Að finna hvaða áhrif þetta hefur á viðhorf okkar og hvar við erum í þessu samhengi. Sjálf finn ég að ég vil ekki missa mig í of mikilli neyslu. Við það að vinna á safni hef ég lært að safna ekki of miklu. Það eru lífsgæðin og samveran sem skipta meira máli.“

Á Þjóðminjasafninu er hægt að skoða fornleifar frá Hofstöðum í Mývatnssveit, sem er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Kórónaveiran nú skrásett

Á Safnadaginn verður Þjóðminjasafnið opið og í dag verður opnuð sýning um Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni 90 ára afmælis hennar.

„Við leggjum mikið upp úr sýningum sem vekja fólk til umhugsunar, í stað þess að sýna bara eitthvað ,,flott". Við vekjum athygli á hversu magnaður brautryðjandi og forseti Vigdís var, og langt á undan sinni samtíð. Hennar leiðarljós voru hlutir sem við leggjum áherslu á í dag, sjálfbær þróun og samhengi manns og náttúru í fortíð og framtíð. Já, og í samræmi við heimsmarkmiðin sem við hugsun um nú ,“ upplýsir Margrét.

Önnur ný sýning er afrakstur þrjátíu ára rannsóknar frá Hofsstöðum í Mývatnssveit, sem er í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands.

„Hún sýnir merkar minjar um veisluskála, svo fátt sé talið. Þar hafa fornleifafræðingar varpað ljósi á líf landnámskonunnar Sögu, en með því að greina hauskúpu hennar og bein komu vísindamenn með tilgátu um hvernig hún leit út í lifanda lífi. Síðast, en ekki síst, vil ég nefna magnaða ljósmyndasýningu Gunnars Péturssonar, listræna sýn á umhverfi okkar og hálendi á 20. öld og svo auðvitað Safnahúsið við Hverfisgötu, þar sem er áhrifamikil sýning um okkar sjónræna menningararf.“

Frítt er í Þjóðminjasafnið fyrir börn upp að 18 ára og fullorðnir fá árskort fyrir 2000 krónur. Fjölskyldur geta komið í safnið eins oft og fólk kýs fyrir einn aðgöngumiða fyrir fullorðna á ári.

„Það er frábær upplifun fyrir fjölskyldufólk að koma í söfn, grúska saman og leyfa börnunum að fræðast því þau hafa svo mikinn áhuga. Við eigum að koma í söfn til að njóta og hafa gaman en ekki með því hugarfari að ætla að læra Íslandssöguna frá a til ö og nýta heimsóknina í botn. Komum frekar aftur og aftur til að rannsaka spennandi hluti, fara í ferðalag um söguna og pústum svo á kaffihúsinu. Það er hollt, gott og gefandi fyrir krakka að fara í ratleiki um safnið og í Stofuna til að leika sér, fá hugmyndir og klæða sig upp í gamaldags föt. Ég held að viðhorf margra breytist eftir COVID 19; að fólk vilji vera saman og nota tímann vel. Þá er líka gott fyrir þá sem eru einmana að setjast niður á safni og vera innan um fólk,“ segir Margrét á Þjóðminjasafninu þar sem þessa dagana er unnið að heimildaöflun um lífið á tímum kórónaveirunnar með ljósmyndum og skráningu frásagna almennings.

„Við finnum til upplýsingar og jafnvel gripi sem einkenna tímabilið og föngum augnablikið til að geta sett upp sýningar síðar. Til að ná því þarf að skrásetja andrúmsloftið; auðar götur, fólk að tala saman í gegnum glugga og fólk á göngu sem víkur þegar það mætir öðrum. Það gerum við á meðan ástandið er og réðum til okkar þrjá ljósmyndara í verkið ásamt því að biðja almenning að senda okkur frásagnir úr kófinu. Þær streyma inn í þjóðháttasafnið okkar.“

Sjá allt um Þjóðminjasafnið á thjodminjasafn.is