Frumkvöðlarnir segjast hafa unnið lengi að þróuninni og ferlið hafi tekið tíma. „Við höfum unnið að þróun á témpeh-vörunni í töluvert langan tíma og fengum meðal annars styrk úr Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga, sem að hefur hjálpað okkur mikið í vöruþróuninni. Témpeh er vistvæn og gómsæt vara sem er gerjuð úr kornmeti eða baunum og sveppagróum. Við erum á lokastigi í framleiðsluferlinu og mun témpeh koma í verslanir á næstu vikum“ segir Kristján Thors.

Hátíðarsteik fyrir vistvæn Atli og Kristján Thors 2021.jpg

Kristján Thors og Atli Yngvi Stefánsson hafa lengi unnið að þróun vegan hátíðarsteikarinnar og eru ánægðir með útkomuna./Ljósmyndir aðsendar.

Frá hugmynd á jólaborðið

„Við vöruþróunina á témpeh fengum við ráðgjöf frá reynslumiklum aðilum hjá Högum og út frá þeirri samvinnu kom upp sú hugmynd að Vegangerðin myndi þróa Hátíðarsteik fyrir verslanirnar Bónus og Hagkaup til sölu fyrir hátíðarnar. Hátíðarsteikin frá Vegangerðinni er afurðin af þeirri samvinnu og er hún nú komin í sölu í öllum verslunum Haga um allt land. Móttökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Hátíðarsteikin er ljúffeng og hentar bæði grænkerum og vistkerum sem að vilja huga að umhverfisáhrifum sínum í vali á mat. Steikin er mjög næringarrík og eitt aðalhráefnið er témpeh sem búið er til úr lífrænu íslensku byggi. Kannski má segja að þetta sé gott dæmi um hvernig lítil hugmynd getur farið á flug með góðri samvinnu og fjölbreyttri þekkingu. Það er magnað að hugsa til þess að Hátíðarsteikin verði á borðum fjölmargra landsmanna um jólin í mikilvægustu máltíð ársins“ segir Kristján Thors.

Sjálfbærni og innlend framleiðsla

Aðspurðir hvað væri framundan hjá Vegangerðinni svarar Atli að það séu metnaðarfullar áætlanir hjá fyrirtækinu fyrir næstu ár. Vegangerðin er vistvænt verkefni sem hefur heilsu fólks og jarðarinnar að leiðarljósi. Vistvænt fæði nýtur aukinna vinsælda en langmest af slíkri matvöru er innflutt og oft mjög unnin frosin matvara. Lítið er framleitt á Íslandi af ferskum próteingjöfum líkt og témpeh. Okkar markmið er að framleiða fjölda vara úr hráefni sem að ræktað er á Íslandi til þess að vera eins sjálfbær og hægt er. Saman eigum við jú bara eina jörð.