„Áhrifin á hátíðarklæðnaðinn koma sterk inn sem Hollywood glamúr og má þar nefna silkiáferð í bland við blúndur og leður,“ segir Dabbý. „Efniviðurinn er þægilegur og vellíðan í fyrirrúmi þegar í hátíðarklæðnaðinn er komið. Jólaliturinn í ár er klárlega dökkgrænn, kremaður, svartur og rauður.“

Fallegur og léttur jólakjóll sem alltaf er hægt að nota.

Aðspurð segir Dabbý að fylgihlutir séu alla jafna ómissandi og sumir meira en aðrir. „Það er alltaf gaman að eiga fallega tösku og ég mæli með að eiga nokkrar til að poppa upp klæðnaðinn. Bólstraðar töskur í nude, camel eða svörtum lit, silkislæður í hár eða um háls eru líka inn í dag. Svo eru það skórnir sem setja punktinn yfir i-ið. Áberandi í skótískunni eru litríkir glitrandi strigaskór og há stígvél sem ganga einstaklega vel við kjóla. Þá þarf að passa að ofgera ekki í skarti þegar klæðnaðurinn er glamúr.“

Áramótaklæðnaðurinn sem mun steinliggja í ár að mati Dabbýjar er fallegur síðkjóll úr blúndu eða silki sem er líka þægilegur. „Það skiptir máli að klæðnaðurinn sé þægilegur og stuðli að vellíðan og um leið undirstriki glæsileika. Svo er næs að vera í áberandi strigaskóm, hælum eða kúrekaskóm, sem eru mjög heitir í dag.

Svo eru það jólagjafirnar sem njóta vinsælda en í ár eru það pelsar, kápur, úlpur, töskur, peysur, góður jogginggalli, ilmvatn, undirföt og náttföt,“ segir Dabbý og bætir við að það sé áberandi að konur vilji þægilegan og hlýjan fatnað sem veiti þeim vellíðan.

Síður blúndukjóll frá Dea Kudibal undirstrikar hátíðleikann og steinliggur sem áramótakjóll.