Frá upphafi faraldursins hefur þjóðkirkjan haft það að leiðarljósi að vera samstíga stjórnvöldum og bakhjarl í því krefjandi verkefni að ná tökum á heimsfaraldri sem setur líf, heilsu og daglegt líf úr skorðum.

„Núna þegar þjóðin stendur frammi fyrir enn einni bylgjunni þá setur þjóðkirkjan sig í kunnuglegar stellingar og lagar messuhald og þjónustu yfir hátíðarnar að breyttum aðstæðum.

Þetta er einungis mögulegt vegna þess að kirkjan hefur á að skipa ótrúlegum mannauði, hvort sem það er starfsfólk eða hið magnaða sjálfboðaliðastarf um allt land. Vinnufúsar hendur og hjarta sem slær fyrir kirkjulegt starf trúar, vonar og kærleika,“ segir Pétur Markan, biskupsritari á Biskupsstofu.

Takmarkanir í kirkjum

„Það er ljóst að hægt verður að halda úti takmörkuðum hátíðarguðsþjónustum innan þeirra marka sem sóttvarnareglur kveða á um sem er 50 manna hámark – 200 manns að hámarki að undangengnu hraðprófi.

Við hvetjum alla til að skoða hvernig þeirra sókn eða sú sókn sem þeir hafa áhuga á að sækja kirkju til muni útfæra hátíðarþjónustuna. Ljóst er að sóknir landsins starfa við ólík skilyrði þegar kemur að aðgengi hraðprófa og mögulegra sóttvarnahólfa. Það er því eðlilegt að hátíðarhelgihald taki mið af því,“ segir Pétur.

Hátíðarmessa í útvarpi

„Við viljum hins vegar minna á að helgihaldinu verða gerð myndarleg skil á RÚV og N4. Á aðfangadag verður aftansöngur frá Dómkirkjunni klukkan 18 á Rás 1. Um kvöldið verður síðan Helgistund með biskupi Íslands klukkan 22 á RÚV. Á jóladag verður hátíðarmessa á Rás 1 klukkan 11 og síðan verður hátíðarmessunni sjónvarpað klukkan 13 á RÚV. Klukkan 15 á jóladag verður síðan Hátíðarmessa frá Hólum á N4.

Helgihaldi þjóðkirkjunnar verða því gerð afar góð skil í útvarpi og sjónvarpi, aukinheldur sem margar sóknir verða með efni sem hægt verður að nálgast gegnum samfélagsmiðlana.

Það er samtakamáttur þjóðarinnar sem vinnur á endanum orrustuna við heimsfaraldurinn. Þar vill þjóðkirkjan vera ábyrgur þátttakandi með því að halda úti öruggri hátíðarþjónustu í samræmi við sóttvarnareglur og bjóða upp á fjölbreyttar og myndarlegar hátíðarguðsþjónustur í sjónvarpi og útvarpi.“