Elva Dögg segir að þegar hún leggi af stað í að dekka borð þá ráðist útkoman oftar en ekki af einhverjum hlut sem hana langar að skreyta með. „Í ár var það „úfin“ blómaskreyting og berjalitaður dúkur sem ég vildi koma á borðið. Ég var með ákveðinn lit á dúk í huga og hætti ekki að leita fyrr en ég á endanum fann hörefni í rétta litnum og saumaði. Eftir það kom hitt að sjálfu sér. Ég ætlaði mér upphaflega að fara í ljóst og lystugt þema en endaði í dökkum og dulúðlegum stíl. Hér er ég að vinna með svarta diska, villta blómaskreytingu og furugreinar til skrauts í bland við kristalsglös og handrennda íslenska keramík sem setur punktinn yfir i-ið.

Fersk blóm og lifandi greni ómissandi um hátíðirnar

Elva er ekki fastheldin í litavali þegar kemur að því að dekka hátíðarborðið. „Það breytist á hverju ári. Þó að diskar og hnífapör séu meira og minna sami grunnurinn þá getur dúkurinn breyst, litaval á kertum, kertastjakar, skálar, glös og servíettur. Þetta eru allt hlutir sem hægt er að leika sér með á marga vegu. Annars finnst mér alveg ómissandi að hafa fersk blóm og greni. Það er fátt sem jafnast á við blómailm þegar sest er til borðs, fyrir utan hvað blóm eru mikil skreyting út af fyrir sig og það þarf varla neitt annað,“ segir hún.

Vel dekkað borð er eins og forréttur fyrir augað

Elvu er mikið í mun að borðgestum líði vel og njóti þess að sitja við borðhaldið. „Ég vil fyrst og fremst að fólkinu við borðið líði vel.

Það jafnast ekkert á við að sjá gleðina hjá þeim sem setjast til borðs, og fylgjast með gestunum virða fyrir sér skreytingarnar. Þá hefur manni tekist vel til. Vel dekkað borð er eins og góður forréttur í mínum huga.“

Svarta matarstellið er frá Bloomingville og kristalsglösin eru frá Frederik Bagger. Skálin undir blómin er hönnun frá By Lassen og er einnig undir mat. Eva skreytir glösin með rósmaríngreinum og granateplakjörnum. MYND/AÐSEND