Sirkuslistafélagið Hringleikur hefur í nógu að snúast þessa dagana. Félagið fékk styrk til að halda sirkuslistahátíð, er nýbúið að taka í notkun nýtt húsnæði á Sævarhöfða og fékk Grímuverðlaun fyrir sýninguna Allra veðra von.

Sirkussenan á Íslandi hefur verið í mikilli þróun á undanförnum árum, segir Eyrún Ævarsdóttir, formaður sirkuslistafélagsins Hringleiks. Félagið fékk nýlega styrk frá Barnamenningarsjóði til að halda sirkuslistahátíð og stefnir á að láta verða af því sumarið 2022.

„Hátíðin verður þrír dagar og við ætlum að vera með sýningar, námskeið og svona upplifunarsýningar líka. Það verður sem sagt hitt og þetta og allt eitthvað sirkustengt,“ segir Eyrún.

Með hátíðinni er vonast til þess að tengja saman það sem er að gerast í sirkuslistum á Íslandi og það sem er að gerast erlendis. „Við stefnum á að vera í samstarfi við erlenda aðila, sérstaklega sirkusrýmið Dynamo í Danmörku, um að fá til okkar nokkra alþjóðlega listamenn með sýningar.“

Hringleikur hefur tekið í notkun nýtt sirkushúsnæði á Sævarhöfða.

Sirkushús á Sævarhöfða

Hátíðin verður meðal annars haldin í nýju húsnæði félagsins á Sævarhöfða, sem tekið var í notkun á dögunum. Þetta er í fyrsta sinn sem sirkuslistir hafa verið með eigið húsnæði á Íslandi en listgreinin hefur miklar sérþarfir hvað varðar rými, búnað og lofthæð.

„Sirkuslistir hafa verið að þróast mjög hratt á Íslandi á undanförnum árum og fjölmargir farnir að stunda þetta, bæði sem áhugafólk og sem fagmenn. Núna hefur allt þetta fólk betri aðgang að því að geta æft sína listgrein eins og það vill,“ segir Eyrún

Hringleikur er ekki eina félagið sem hefur flutt starfsemi sína á Sævarhöfða. „Núna rísa ýmsar ólíkar fjöllistahallir, sem eru undir sirkus, „parkour“, hjólaskauta, tónlistarfólk og alls konar. Það verður gaman að sjá hvernig allir þessir aðilar munu koma að þessum viðburði,“ segir Eyrún.

Hátíðin mun nýta þau ólíku rými sem eru á svæðinu. „Við leyfum þannig sirkus og almennt skemmtilegum listum og fjöri að flæða þarna um bæði úti og inni,“ segir Eyrún. „Við vonum að þetta verði skemmtileg stemning og fullt af alls konar viðburðum sem fólk vissi ekki að væru til staðar á Íslandi.“

Nemendur Æskusirkussins æfa sig í loftfimleikum.
Fréttablaðið/Ernir

Allra veðra von

Þetta eru ekki einu stóru fréttirnar hjá félaginu, en í síðustu viku fékk sýningin Allra veðra von Grímuverðlaun fyrir dans og sviðshreyfingar ársins.

„Allra veðra von er aðgengileg nýsirkussýning sem fjallar um veðrið með tungumáli sirkuslistanna, þar sem loftfimleikar og akróbatík blandast við leiklist, dans og tónlist til að skapa heim þar sem við skoðum sögur af mönnum og veðri,“ segir Eyrún.

Sýningin var frumsýnd í Tjarnarbíói í maí og frá júní til ágúst ætlar hópurinn að sýna utandyra á landsbyggðinni.

„Sirkuslistir hafa verið í mikilli þróun undanfarin ár, sem hefur verið ótrúlega gaman, og við erum þakklát að finna þann meðbyr sem við höfum fengið,“ segir Eyrún. „Okkur hefur verið mjög vel tekið með þá þróun.“

Loftfimleikar í húsnæði Hringleiks.
Krakkar leika sér í „parkour“ í næsta sal.