Pan Thorarensen hefur fyrir utan frjótt samstarf við föður sinn Óskar Thorarensen og Þorkel Atlason í Stereo Hypnosis, framleitt og gefið út plötur undir ýmsum merkjum. Hann hefur einnig fengist við tónlist í stuttmynda- og heimildarmyndagerð og gefið út fjöldann allan af tónlistarverkum. Síðastliðinn áratugur hefur svo heilmikið farið í ferðalög að sögn Pan en hann hefur spilað á fjölda tónlistarhátíða í Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og jafnvel Íran.

„Hátíðin og starfið í kringum hana hefur leitt af sér fjölda útgáfa, tónleika, ferðalaga erlendis og samstarfs við erlenda sem innlenda tónlistarmenn að ótöldum ógleymanlegum uppsetningum á hátíðum erlendis og innanlands,“ segir Pan.

Upphaf hátíðarinnar má rekja til ársins 2009 þegar Pan var staddur á Hellissandi ásamt föður sínum Óskari við upptökur á plötu Stereo Hypnosis, Hypnogogia. „Við fjölskyldan vorum þá á göngu þegar við rákumst á fallega félagsheimilið Röst og kviknaði þá sú hugmynd að halda útgáfutónleikana okkar þar þá um haustið. Andrúmsloftið og umhverfið var svo stórfenglegt, sérlega með ambient tónlistinni, að við ákváðum að gera meira úr þessu og ári seinna var fyrsta hátíðin haldin undir jökli.

Rafræn Reykjavík

Extreme Chill er raftónlistarhátíð í grunninn en síðustu ár höfum við verið að fara meira út í experímental tónlist, klassíska, ambient og alveg út í tilraunakenndan djass, sem opnar náttúrlega fleiri dyr fyrir okkur og hlustandann.“

Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenska og erlenda raftónlistarmenn og tengja saman ólík listform, hljóðheim raftónlistarinnar og lifandi myndheim, ásamt því að vekja athygli á rafrænni Reykjavík, raftónlistarhöfuðborg Íslands.

Hátíðin hefur vakið mikla athygli víða um heim og var t.a.m valin ein af eftirtektaverðustu tónlistarhátíðum 2012 í The Guardian sökum einstakrar tengingar tónlistar og náttúru.

Pan segir hópinn sem sækir hátíðina vera breiðan; allur aldur og öll kyn. „Við höfum séð unga krakka sem hafa áhuga á raftónlist koma á hátíðina og svo allt upp í eldra fólk. Aldurinn færist líka ofar þegar tíminn líður og fólkið sem var 25 ára þegar fyrsta hátíðin var haldin er núna 35 ára og er enn þá að koma. Það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og heyra enda um að ræða tónlistarstefnu í stöðugri þróun svo fólk kemur aftur og aftur.“

Aðalnúmer hátíðarinnar í ár er bandið Tangerine Dream sem er stærsta rafsveit allra tíma og hefur verið að frá árinu 1967. „Við erum að sjá nýja hópa kaupa miða, fólk sem hlustaði á þá á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. En einnig ungt fólk sem er vel að sér í tónlistarsögunni og veit að hér er á ferð band sem hefur haft mikil áhrif í tónlistarheiminum í gegnum tíðina og er enn að hafa áhrif.“

Nafnið passar áru hátíðarinnar

Pan segir vöntun hafa verið á andstæðunni við þær hátíðir sem voru fyrir þar sem áherslan var á popptónlist, indí, danstónlist, djass, blús, þungarokk og klassík. „Þessi tónlist sem við leggjum áherslu á passar einhverra hluta vegna illa inn í þær hátíðir og þá flokka sem fólk þekkir og flokkar tónlist í. Tónlist þarf ekki endilega að vera spiluð á hljóðfæri til að vera tónlist. Það að vinna hljóðheima og tónlist í tölvu hefur verið gert síðustu áratugi og verður gert áfram og það er nauðsynlegt að gera þessari tegund hátt undir höfði líka.

Extreme Chill er svo gott nafn sem lýsir „árunni“ eða yfirbragðinu á hátíðinni ef svo má segja og allir skilja það, hvort sem um Íslendinga eða útlendinga er að ræða,“ útskýrir Pan en þó nokkuð af erlendum gestum sækir hátíðina ár hvert.

Fókusinn ekki á gróða

Hátíðin var haldin úti á landi fyrstu árin enda segir Pan það hafa passað rólegu yfirbragði hennar vel. „En með auknum áhuga erlendra og íslenskra gesta síðustu ár færðum við hátíðina til Reykjavíkur til að auðvelda fólki aðgengi að einstaka viðburðum. Hátíðin stendur yfir frá fimmtudegi til sunnudags á sjö mismunandi stöðum í borginni og engir tveir viðburðir eru á sama tíma.

Þetta er „non profit“ fjölskyldurekin hátíð þar sem fókusinn er ekki á gróða heldur að gera okkar besta í að koma ýmsum raftónlistarstefnum og tónlistarfólki á framfæri. Þessi hátíð er drifin áfram af einskærum áhuga og ástríðu.“

Miðasala er á midi.is og heimasíða Extreme Chill er extremechill.org.