Spjall­þátta­stjórnandinn John Oli­ver í viku­þættinum Last Week Tonight fór ekki í graf­götur með hrifningu sína á Hatara í nýjasta þættinum en Hatari gegndi nokkuð stóru hlut­verki í upp­hafi þáttarins þar sem Oli­ver kafar jafnan dýpra í mál­efni líðandi stundar.

„Í stað þess að tala um vikuna hér í Banda­ríkjunum sem hefur verið ansi niður­drepandi skulum við byrja handan við hafið á Euro­vision söngva­keppninni,“ sagði spjall­þátta­stjórnandinn og líkti meðal annars ástralska keppandanum við Elsu úr Frozen á priki.

„En senni­lega var mest sláandi frammi­staðan frá ís­lensku kepp­endunum, sem fóru í allt aðra átt,“ sagði kappinn áður en hann sýndi frammi­stöðu Hatara. „Yndis­legt, þetta er yndis­legt. Loksins erum við komin með svarið við spurningunni um það hvað gerist ef þú dreifir álfa­ryki yfir sýningu hjá Chris Angels,“ sagði Oli­ver. Hann lýsti sveitinni sem magnaðri og leyfði þeim að kynna sig sjálf með því að sýna frá við­tali við Matthías og Klemens þar sem þeir kynna sig.

„Hatari fékk at­hygli með því að hunsa sögu Euro­vision og vilja til að vera ó­pólitísk og aðal­söngvarinn þeirra lýsti því að þátt­taka þeirra í keppninni færði þau einu skrefi nær því að eyða kapítal­isma. Og ef þú ert að hugsa hvað gerir þau hæf til að ræða al­þjóða­stjórn­mál að þá er það í blóðinu þeirra,“ sagði Oli­ver og sýndi því næst klippu úr við­tali við Hatara í Good Morning Britain þar sem vakin var at­hygli á því að trommugimpið Einar er sonur Stefáns Hauks Jóhannes­sonar, sendi­herra Ís­lands í Lundúnum.

Sjá má brot úr inn­slaginu hér að neðan.