Í gærkvöldi settust flestir landsmenn niður fyrir framan sjónvarpsskjáina til að fylgjast með Eurovision. Sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa mátti sjá í vatnsnotkun yfir kvöldið.

Í rennslismælingum frá Veitum má sjá að vatnsnotkun var töluvert minni á meðan á keppninni stóð en á hefðbundnum laugardegi. Þannig var fólk farið að nota minna vatn strax hálftíma áður en útsending hófst enda flestir farnir að koma sér í stellingar fyrir framan skjáinn.

Vatnsnotkunin minnkaði svo stöðugt eftir því sem leið á keppnina en tók góða dýfu á meðan Hatari var á sviði sem og þegar úrslitin voru tilkynnt. Einnig minnkaði hún nokkuð þegar Madonna flutti atriði sitt og einnig þegar sænski poppsöngvarinn Måns Zelmerlöw steig á svið.

Eðlilega jókst vatnsnotkunin svo í auglýsingahléum og má búast við að margir hafi þá nýtt tímann og létt á sér. Eftir keppnina jókst notkunin svo hratt og fór fljótt aftur upp í það sem eðlilegt má teljast á laugardagskvöldi.