„Það er svo fjarstæðukennt að taka þátt í þessari keppni þar sem allir eru svona vingjarnlegir og allt snýst um tónlistina og að elska hvern annan,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara Hatara, í viðtali við breska dagblaðið The Guardian

„Og að vera í þessari sápukúlu, degi eftir að hafa séð aðskilnaðarstefnuna í verki, ekki lengra en í klukkustundar akstursfjarlægð er mótsögnin sem við viljum vera meðvituð um,“ bætir Matthías við. The Guardian birtir umfjöllun um sveitina íslensku á vef sínum í dag.

Þar fara þeir Matthías og Klemens Nikulásson Hannigan, hinn söngvari sveitarinnar, yfir víðan völl, meðal annars um það hvernig lífið er í Tel Aviv, BDSM og kapítalismann. „Það er náttúrlega dýrt að uppræta kapítalismann,“ segir Matthías. Sveitinni er lýst, eins og svo oft áður, sem eins konar BDSM-bandi sem sækir innblástur sinn í „fasíska dystópíu“.

Hatari hefur vakið mikla athygli í Tel Aviv á undanförnum dögum. Margir bíða spenntir eftir að sjá hvernig útkoman verður á sviðinu annað kvöld.

Keppnin haldin í landi þar sem „átök og óeining ráða ríkjum“

„Það er ákveðin spenna,“ segir Matthías og bætir við að sveitinni hafi borist haturspóstar vegna ummæla sinna. „Það er fíll í herberginu,“ bætir hann við. Sveitin stígur á stokk á fyrra undanúrslitakvöldinu annað kvöld og er spáð áfram í úrslit, sem fram fara á laugardag. Markmiðið segja þeir Matthías og Klemens að halda uppi þeirri orðræðu sem þeir hafa gert hingað til og benda á ástandið í Ísrael.

„Eurovision er falleg hugmynd sem byggir á friði og sameiningu, en í ár er keppnin haldin í landi þar sem átök og óeining ráða ríkjum,“ segir Matthías. Að lokum er hann spurður hver markmið og tilgangur Hatara séu, handan Eurovision það er að segja.

„Að spila á tónleikum í löndum þar sem ólöglegt hernám er ekki stundað.“

Viðtalið við Matthías og Klemens má lesa á heild sinni á vef The Guardian hér.