Doktor Erna Sif Arnardóttir er fædd árið 1981. Hún útskrifaðist með BS-gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2005, meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2007 og varði doktorsverkefni sitt í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2013 í samstarfi við Háskólann í Pennsylvaníu.

Erna Sif er leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hún hefur starfað sem nýdoktor og aðjunkt við læknadeild Háskóla Íslands, sem forstöðunáttúrufræðingur við svefndeild Landspítalans og sem klínískur ráðgjafi hjá Nox Medical.

Þá hefur hún starfað sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Í fyrra stofnaði hún þverfaglegt Svefnsetur við Háskólann í Reykjavík, ásamt fjölda samstarfsaðila.

Erna Sif segir fjölda fólks eiga erfitt með svefn af ýmsum ástæðum. „Fólk er annað hvort að sofa of lítið, eða er að glíma við eitthvað sem skerðir svefngæðin.“

Hún segir starf sitt snúast fyrst og fremst um að bæta lífsgæði fólks með því að bæta svefninn.

Risa rannsóknarstyrkur

Erna Sif leiðir rannsóknar- og þróunarverkefnið Svefnbyltinguna, sem hlaut tveggja og hálfs milljarðs króna styrk frá rammaáætlun Evrópusambandsins á síðasta ári og er einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna hérlendis.

„Þetta eru 37 samstarfsaðilar í 24 löndum. Við erum að vinna aðallega innan Evrópu en líka í Ástralíu. Við vonumst til að verkefnið geti breytt svefnmælingum og hvernig við greinum og meðhöndlum svefnraskanir á heimsvísu, þá sérstaklega kæfisvefn.“

Hvað svefn landsmanna varðar, segir Erna Sif: „Rannsóknir benda til þess að unglingarnir okkar séu að sofa með því stysta sem gerist á heimsvísu.“

Hún bætir við að það sé sannarlega ekki eitthvað sem Íslendingar ættu að vera heimsmeistarar í. „Það er spurning hvaða þættir koma þar inn. Við erum líka rosalega sterk í snjallsímanotkun, orkudrykkjum og koffínneyslu.“ Hægt sé að vinna með þessa þætti til að bæta svefninn.

Að auki nefnir Erna Sif vaxandi kvíða meðal ungs fólks sem mögulega orsök fyrir slæmum svefni hjá þeim aldurshópi. „Það er áhyggjuefni.“

Það þykir ekkert voðalega fínt lengur að stæra sig af því að maður þurfi lítinn svefn.

Jólasvefnráð

Aðspurð, hvort landfræðileg staða Íslands hafi áhrif á svefngæði landsmanna, svarar hún: „Við vitum það ekki nógu vel. Það er margt sem bendir til þess að þetta mikla myrkur hafi neikvæð áhrif á svefn fólks. Okkur vantar birtuna á morgnana til að stilla okkur af, að láta okkur vita að nú sé dagur.“ Margir lendi í vandræðum með svefn á veturna og þá sérstaklega að vakna á morgnana og að sofna á kvöldin.

„Það eru margir sem finna þetta, sérstaklega núna í jólafríinu.“ Erna Sif segir að sé að sporna við slæmum svefnmynstrum af þessu tagi. „Til dæmis er hægt að velja sér fastan tíma til að fara á fætur. Ég er samt ekki að segja að það þurfi að vakna klukkan sjö í jólafríinu,“ segir hún og brosir.

„En það er samt gott að fara á fætur á ákveðnum tíma, kveikja eins mikið af ljósum og hægt er og reyna að hafa reglu og rútínu.“

Eitt gúrú-mataræði ekki betra en annað

Varðandi mataræði og hinar fjölmörgu ráðleggingar sem dynja á almenningi þess efnis, úr alls konar áttum, segir Erna Sif: „Tengsl mataræðis og svefns eru minna rannsökuð en maður myndi halda,“ og bætir hún við að þar leynist tækifæri fyrir vísindafólk.

„Það sem við vitum, og er alveg á tæru, er að koffín getur haft mjög neikvæð áhrif á svefn. Sérstaklega ef maður er að neyta þess seinnipartinn og á kvöldin,“ segir hún. „Það er talað um að prófa að sleppa öllu koffíni eftir klukkan tvö á daginn, ef maður á erfitt með svefn.“

Þá nefnir hún að ekki sé æskilegt að borða mjög stórar máltíðir stuttu fyrir svefn. „Líkamanum er ekki ætlað að vinna úr þungum máltíðum á nóttunni.“

Erna Sif vísar síðan í ráðleggingar landlæknis hvað næringu varðar. „Það er ekkert sem bendir til þess að eitthvert gúrú-mataræði sé betra en eitthvað annað,“ segir hún og hlær.

Sérkennileg sérhæfing

Aðspurð svarar Erna Sif því játandi að bylting sé að eiga sér stað á heimsvísu í svefnrannsóknum.„Þegar ég byrjaði, árið 2004, fór ég á námskeið um svefn í Ástralíu,“ segir hún. „Ég ákvað að leita mér að vinnu og námi í kjölfarið.“

Hún segir að fólk á þeim tíma hafa furðað sig á vali hennar á sérhæfingu.„Þá héldu margir, þegar ég sagði þeim að ég ynni við svefnrannsóknir, að ég væri að segja svepparannsóknir. Af því að ég er líffræðingur. Fólk var ekki alveg að skilja hugmyndafræðina.

Foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur af því hvað ég ætlaði að vinna við í framtíðinni,“ segir hún sposk. „En eins og komið hefur í ljós, hefur það nú ekki verið vandamál. Þetta var ekki eitthvað sem fólk var að tala um eða hugsa mikið um á þessum tíma,“ segir Erna Sif og undirstrikar mikilvægi svefnsins: „Þetta er ein af þessum grunnstoðum heilsu, með hreyfingu og næringu.“

Lítill svefn úr tísku

En eru kannski þættir djúpt í menningu okkar á Íslandi sem hafa neikvæð áhrif á svefn?„Við höfum örugglega verið með þeim öflugustu í því, að það sé dyggð að vinna,“ svarar Erna Sif.

„Í lögunum sem við syngjum fyrir börnin okkar á að vaka og vinna. Maður þykir latur ef maður sefur of mikið.“ Hún segir þó merki um að þetta sé að breytast. „Það þykir ekkert voðalega fínt lengur að stæra sig af því að maður þurfi lítinn svefn.“