Prins Harry er nýjasti gestur James Corden í The Late Late show aðeins nokkrum dögum eftir að tilkynnt var að hann ætlar formlega að yfirgefa bresku krúnuna fyrir fullt og allt. Corden sótti Harry í tveggja hæða rútu og segist ætla að sýna honum Los Angeles eins og innfæddum.

Í rútuferðinni drekka þeir te og skoða sig um í Los Angeles og keyra fram hjá nokkrum vel þekktum húsum, svo sem Banks-fjölskylduhúsið sem notað var í þættinum Fresh Prince of Bel-Air. Atriðið er í heild 17 mínútur og er hægt að sjá það i heild sinni hér að neðan.

James og Harry drukku te á annarri hæð rútunnar.
Skjáskot/Youtube

Fékk vöfflujárn í jólagjöf

Prins Harry opnar sig, meðal annars, um hvernig það hafi verið að „deita“ Meghan Markle, hvað honum finnst um Netflix-þættina The Crown og að drottningin hafi gefið Archie vöfflujárn í jólagjöf.

Þá varpar hann enn frekar ljósi á útgöngu sína úr bresku konungsfjölskyldunni og samninga hans og Markle við bæði Netflix og Spotify.

„Við stigum til hliðar í stað þess að hætta. Þetta var erfitt umhverfi, eins og margir sáu. Við vitum öll hvernig breska pressan getur verið og hún var að eyðileggja andlega heilsu mína,“ segir Harry í þættinum og bætir við að við slíkar aðstæður hafi hann gert það sama og allir aðrir feður og tekið fjölskyldu sína úr aðstæðunum sem voru svo eitraðar.

„Við gáfumst ekki upp og frá mínum bæjardyrum séð sama hvaða ákvarðanir teknar hjá þeim mun ég aldrei gefast upp. Ég mun alltaf leggja mitt af mörkum, líf mitt er opinber þjónusta svo hvar sem ég er í heiminum verður það alltaf eins,“ segir hann um það.