Harry Breta­prins kveðst vera dapur yfir á­kvörðun sinni um að hann og eigin­kona hans, Meg­han Mark­le, myndu segja sig frá opin­berum skyldum innan bresku konungs­fjöl­skyldunnar. Harry tjáði sig opin­ber­lega um við­skilnaðinn við fjöl­skylduna í fyrsta sinn í gær á við­burði fyrir stuðnings­fólk góð­gerða­sam­takanna Senta­ba­le.

„Á­kvörðunin sem ég tók um að við konan mín myndum stíga til hliðar var ekki auð­veld. Það var í raun enginn annar val­kostur í boði.“ Harry sagðist á­varpa gestina, „ekki sem prins, eða her­toginn af Sus­sex, heldur sem Harry.“ Hann hafi fundið ástina og hamingjuna sem hann hafi leitað af allt sitt líf með Meg­han.

„Ég veit að þið hafið kynnst mér nógu vel í gegnum árin til að treysta því að konan sem ég kaus að giftast stendur fyrir sömu gildi og ég. Sem hún gerir.“ Bæði hafi þau gert allt sem í þeirra valdi stóð til að sinna skyldum sínum og þjóna landi og þjóð. „Af þeim á­stæðum hryggir það mig að þetta hafi endað svona.“

Harry Bretaprins er ævinlega þakklátur fjölskyldu sinni.
Skjáskot/Youtube

Stóð ekki til boða að halda á­fram

Prinsinn sagði þau Meg­han hafa vonast til þess að fá að halda á­fram að þjóna drottningunni, sam­veldinu og hernum án opin­bers fjár­magns. Því miður hafi það ekki verið staðið til boða. Hjónin hafi því ekki átt annarra kosta völ en að gefa konung­lega titla sína upp á bátinn.

Harry segist þó bera mikla virðingu fyrir Elísa­betu, ömmu sinni, og sagði það hafa verið sannan heiður að þjóna henni. „Ég er henni, og fjöl­skyldu minni, ævin­lega þakk­látur fyrir þann stuðning sem þau hafa sýnt okkur síðustu mánuði.“

Þurfa að endur­greiða 400 milljónir

Mikill titringur hefur verið innan bresku hirðarinnar síðan Harry og Meg­han sögðust ætla að segja sig frá em­bættis­­skyldum bresku krúnunnar og ætla sér að verða fjár­hags­­lega sjálf­­stæð. Undan­farna daga hefur konungs­fjöl­­skyldan unnið að því að finna lausn á máli þeirra hjóna og er niður­­­staðan sú að þau fá ekki lengur að bera titla sína sem her­­toga­hjón og eru svipt opin­berum greiðslum.

Þá er þeim einnig gert að endur­greiða þær 400 milljónir sem fóru í endur­bætur á Frog­mor­e setrinu, sem átti að verða heimili þeirra. Harry þurfti einnig að skila tignum sem hann hlaut í hernum.

Harry vonast til að fjöl­skyldun geti nú tekið skref í áttina að frið­sælla lífi. „Við rennum blint í sjóinn. Takk fyrir að veita mér hug­rekki til að taka næsta skref.“