Harry Bretaprins segir að Vilhjálmur bróðir sinn hafi ráðist á sig árið 2019 í kjölfar rifrilda þeirra um eiginkonu Harry, Meghan Markle. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ævisögu Harry, Spare, en breska blaðið Guardian hefur bókina undir höndum þar sem þetta kemur fram.
Í bókinni kemur fram að Vilhjálmur hafi meðal annars sagt Meghan vera „erfiða“ og „dónalega“. Enduðu samskipti þeirra þannig að Vilhjálmur greip í bróður sinn og ýtti við honum með þeim afleiðingum að hann datt í gólfið. Segir hann einnig að hálsmen sem hann var með á sér hafi slitnað í hamaganginum. Harry segir að hann hafi verið með sýnilega áverka á bakinu eftir atvikið.
Harry fer ítarlega í saumana á atvikinu sem átti sér stað á heimili hans í Kensington-höll árið 2019. Segir hann að Vilhjálmur hafi meðal annars viljað ræða við bróður sinn um samskiptavanda þeirra. Þegar Vilhjálmur mætti á svæðið hafi honum strax orðið heitt í hamsi og hagað sér á „órökréttan“ hátt.
Segir Harry að þeir bræður hafi skipst á nokkrum vel völdum orðum, Harry sagt Vilhjálm haga sér eins og erfingja krúnunnar og átt erfitt með að setja sig í spor yngri bróður síns. Vilhjálmur hafi svo fullyrt að hann vildi einungis hjálpa bróður sínum. „Er þér alvara? Hjálpa mér? Fyrirgefðu, kallarðu þetta að hjálpa mér?“
Harry segir að þessi athugasemd hafi reitt Vilhjálm til mikillar reiði. Harry hafi hörfað undan honum inn í eldhús á meðan bálreiður bróðir hans elti hann. Bætir hann við að hann hafi rétt bróður sínum vatnsglas og sagt við hann að hann gæti ekki rætt við hann í þessu skapi.
„Hann setti vatnsglasið niður og kom að mér. Þetta gerðist svo hratt, mjög hratt. Hann greip í hálsmálið, reif hálsmenið mitt og ýtti mér í gólfið,“ segir hann og bætir við að matarskál heimilishundsins hafi brotnað undan þunga hans þegar hann lenti í gólfinu.
„Ég lá þarna í smástund, mjög ringlaður, áður en ég stóð upp og sagði honum að fara út,“ segir Harry og bætir við að Vilhjálmur hafi hvatt hann til að slá til baka. Að lokum hafi Vilhjálmur beðist afsökunar og sagt að hann þyrfti ekki að segja Meghan frá þessari uppákomu. Harry sagði Meghan ekki strax frá atvikinu en þegar hún sá hruflað bakið á Harry hafi hann sagt henni hvað átti sér stað.
Bókin er væntanleg í verslanir í næstu viku og er óhætt að segja að hennar sé beðið með mikilli eftirvæntingu.