Harry Breta­prins segir að Vil­hjálmur bróðir sinn hafi ráðist á sig árið 2019 í kjöl­far rifrilda þeirra um eigin­konu Harry, Meg­han Mark­le. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ævi­sögu Harry, Spare, en breska blaðið Guar­dian hefur bókina undir höndum þar sem þetta kemur fram.

Í bókinni kemur fram að Vil­hjálmur hafi meðal annars sagt Meg­han vera „erfiða“ og „dóna­lega“. Enduðu sam­skipti þeirra þannig að Vil­hjálmur greip í bróður sinn og ýtti við honum með þeim af­leiðingum að hann datt í gólfið. Segir hann einnig að háls­men sem hann var með á sér hafi slitnað í hama­ganginum. Harry segir að hann hafi verið með sýni­lega á­verka á bakinu eftir at­vikið.

Harry fer ítar­lega í saumana á at­vikinu sem átti sér stað á heimili hans í Kensington-höll árið 2019. Segir hann að Vil­hjálmur hafi meðal annars viljað ræða við bróður sinn um sam­skipta­vanda þeirra. Þegar Vil­hjálmur mætti á svæðið hafi honum strax orðið heitt í hamsi og hagað sér á „ó­rök­réttan“ hátt.

Segir Harry að þeir bræður hafi skipst á nokkrum vel völdum orðum, Harry sagt Vil­hjálm haga sér eins og erfingja krúnunnar og átt erfitt með að setja sig í spor yngri bróður síns. Vil­hjálmur hafi svo full­yrt að hann vildi einungis hjálpa bróður sínum. „Er þér al­vara? Hjálpa mér? Fyrir­gefðu, kallarðu þetta að hjálpa mér?“

Harry segir að þessi at­huga­semd hafi reitt Vil­hjálm til mikillar reiði. Harry hafi hörfað undan honum inn í eld­hús á meðan bál­reiður bróðir hans elti hann. Bætir hann við að hann hafi rétt bróður sínum vatns­glas og sagt við hann að hann gæti ekki rætt við hann í þessu skapi.

„Hann setti vatns­glasið niður og kom að mér. Þetta gerðist svo hratt, mjög hratt. Hann greip í háls­málið, reif háls­menið mitt og ýtti mér í gólfið,“ segir hann og bætir við að matar­skál heimilis­hundsins hafi brotnað undan þunga hans þegar hann lenti í gólfinu.

„Ég lá þarna í smá­stund, mjög ringlaður, áður en ég stóð upp og sagði honum að fara út,“ segir Harry og bætir við að Vil­hjálmur hafi hvatt hann til að slá til baka. Að lokum hafi Vil­hjálmur beðist af­sökunar og sagt að hann þyrfti ekki að segja Meg­han frá þessari upp­á­komu. Harry sagði Meg­han ekki strax frá at­vikinu en þegar hún sá hruflað bakið á Harry hafi hann sagt henni hvað átti sér stað.

Bókin er væntan­leg í verslanir í næstu viku og er ó­hætt að segja að hennar sé beðið með mikilli eftir­væntingu.