James Snyder, Broadway leikari sem fer með hlutverk Harry Potter í leikritinu Harry Potter og bölvun barnsins eftir Jack Thorn og J.K. Rowling, hefur verið rekinn úr leikhópnum eftir að kvörtum barst frá leikkonunni Diane Davis sem fer með hlutverk Ginny Weasley.

Framleiðendur verksins settu á laggirnar rannsókn eftir að kvörtun barst frá Davis um háttsemi Snyder gagnvart sér. Leikararnir voru báðir ráðnir í hlutverk galdrahjónanna árið 2019 en kvörtun barst fyrst 19. nóvember í fyrra. Sýningar á verkinu hófust 16. nóvember, aðeins þremur dögum áður en kvörtunin barst, en leikhúsið þurfti að loka vegna Covid-19 takarmarkanna.

Var þá ákveðið að senda Snyder í leyfi þar sem niðurstaða rannsóknar lá fyrir.

„Að lokinni rannsókn tóku framleiðendur ákvörðun um að Snyder myndi ekki snúa aftur í hlutverk sitt. Davis hefur einnig tekið ákvörðun um að fara í tímabundið leyfi,“ segir í tilkynningu frá framleiðendum til fréttavefs Entertainment Weekly.

Steve Haggard hefur tekið við hlutverki Harry Potter og varaleikararnir(e. understudies) Judith Lightfoot Clarke og Rachel Leslie skiptast á að leika Ginny Weasley meðan Davis er í leyfi.