Hinn 34 ára gamli Tom Felton, sem þekktastur er fyrir hlut­verk sitt sem Draco Mal­foy í Harry Potter-kvik­myndunum, hné niður er hann tók þátt í golf­móti í Wisconsin í Banda­ríkjunum á mið­viku­dag.

Sam­kvæmt banda­rísku golf­sam­tökunum PGA, sem stóðu fyrir Ryder Cup Celebrity Match mótinu, varð Felton fyrir „læknis­fræði­legri upp­á­komu“ og var sendur á sjúkra­hús til að­hlynningar.

Felton fluttur af velli.
Fréttablaðið/Getty

Á myndum sem teknar voru af upp­á­komunni sést Felton, með með­vitund, fluttur af Whistling Straits-vellinum á kerru. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hans.

Felton er mikill golfari og keppti fyrir hönd Evrópu í mótinu, þar sem lið með evrópskum og banda­rískum golfurum etja kappi. Með Felton í liði var finnski hokkí­leik­maðurinn Teemu Selanne og and­stæðingar þeirra voru banda­ríski hokkí­leik­maðurinn Mike Eurzione og skautarinn Dan Jan­sen.