Prinsarnir Harry og William hafa krafist þess að fá að flytja ræðu í sitt hvoru lagi við afhjúpun styttu af móður þeirra, Díönu prinsessu. Krafan þykir benda til þess að bræðurnir hafi enn ekki bundið enda á 18 mánaða ósætti sitt.
Styttan verður afhjúpuð í júlí á þessu ári í tilefni þess að Díana hefði orðið sextug. Búist var við því að bræðurnir myndu halda tölu saman og grafa stríðsaxirnar við þetta tilefni en það virðist ekki ætla að ganga eftir.
„Bræðurnir verða tæknilega á sama stað við athöfnina en þeir vilja ávarpa gesti á sinn eigin hátt,“ sagði heimildarmaður götublaðsins The Sun. „Maður hefði haldið að þeir myndu sættast við sameiginlega yfirlýsingu en þeir hafa hver um sig krafist þess að útbúa sína eigin ræðu.“
Bræðurnir virðast ekki hafa verið á sömu blaðsíðu síðan Harry og eiginkona hans Meghan Markle yfirgáfu konungsfjölskylduna. Þá gerði alræmt viðtal Harry og Meghan við Opruh Winfrey lítið annað en að hella olíu á eldinn.
