Bræðurnir Harry og William voru báðir viðstaddir við útför afa síns Fillippusar, hertogans af Edinborg, í gær. Harry og Williams sáust tala saman þegar þeir yfirgáfu St. George´s kapelluna í Windsor þar sem Filippus var borinn til grafar.

Þetta er í fyrsta skipti sem prinsarnir sjást saman opinberlega síðan Harry og eiginkona hans, Meghan Markle, sögðu skilið við konungsfjölskylduna.

Stirt milli bræðranna

Í mars síðastliðinn tjáði Harry sig um samband þeirra bræðra í örlagaríkum spjallþætti við Opruh Winfrey. Hann sagði þá bræður feta ólíkar brautir í lífi sínu og að samband þeirra þyrfti ákveðið rými.

William var sagður vera í uppnámi eftir viðtalið, hann hefur einungis tjáð sig í eitt skipti opin­ber­lega um það. Var það fyrir utan skóla í út­hverfi í London þar sem hann svaraði á göngu sinni út úr skólanum að fjöl­skylda hans væri „alls ekki rasísk fjöl­skylda“ og að hann hefði enn ekki talað við bróður sinn en myndi gera það.

William var í útförinni ásamt eiginkonu sinni Kate Middleton, hertogayngjunni af Cambridge en Meghan mætti ekki með Harry þar sem hún vildi ekki draga athygli frá jarðaförinni. Aðeins voru 30 manns viðstödd útförina vegna sóttvarnaráðstafana en talsverður fjöldi tók þó þátt í útförinni sem var sýnd um allan heim í beinni útsendingu.

Prinsarnir virðast ekki eiga mikla samleið.
Fréttablaðið/Getty