Breski ökukennarinn Kevin Keiley var sviptur notendanafninu sínu á Instagram og var notendanafnið gefið Harry Bretaprins og Meghan Markle sem stofnuðu á dögunum nýjan Instagram aðgang. Hann segist upp með sér vegna málsins en einnig pirraður, að því er fram kemur á vef BBC.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær stofnuðu hertogahjónin aðganginn í fyrradag en þau hafa nú fengið sitt eigið starfsfólk sem er óháð starfsfólki hertogahjónanna af Cambridge í Kensington höll, það er William Bretaprins og Kate Middleton en pörin nýttu sér áður sama starfsfólkið. Meghan og Harry slógu met í fylgjendafjölda á fyrsta sólarhringnum og eru nú með 3,5 milljónir fylgjenda.
Kevin hafði notað notendanafnið @sussexroyal í rúm þrjú ár en hann er stuðningsmaður enska fótboltaliðsins Reading og er gælunafn þeirra „the Royals“ eða „hinir eðalbornu“ og býr Kevin jafnframt í vestur Sussex.
Kevin segist fyrst hafa áttað sig á því að hann hafi verið sviptur notendanafninu þegar hann fékk skilaboð. „Ég fékk hnyttin skilaboð frá syni mínum sem sagði „Ha ha, ég sé að notendanafnið þitt er horfið,“ segir Kevin sem spurði hann hvað í ósköpunum hann meinti. Sonurinn sagði honum þá að kíkja á Instagram.
„Allt í einu var notendanafnið mitt ekki lengur @sussexroyal heldur orðið @_sussexroyal_. Það hafði bara verið tekið,“ segir Kevin sem viðurkennir að hann hafi ekki haft það marga fylgjendur og ekki birt margar færslur, en hann segist þó nota miðilinn til að bregðast við færslum og fylgjast með.
Enginn í konungsfjölskyldunni hafði samband við Kevin áður en notendanafnið var tekið, en í tilkynningu frá Instagram segir að notendanafninu hafi verið breytt í samræmi við reglur miðilsins sem segir að miðillinn áskili sér rétt til að breyta aðgöngum sem hafa verið óvirkir í ákveðinn tíma.
Kevin segist í samtali við breska ríkisútvarpið vera eilítið pirraður að miðillinn hafi ekki haft samband við sig en hann heldur þó nafninu á Twitter, þar sem notendafjöldi hans hefur rokið upp eftir að Meghan og Harry stálu Instagram notendanafninu hans.
„Harry og Meghan, ef þið viljið Twitter notendanafnið mitt, þá kannski getið þið verið nógu heiðarleg til að tala við mig?“ segir Kevin við BBC, aðspurður hvað hann myndi segja við hertogahjónin ef hann hefði tækifæri til að tala við þau.
This is the original and only Sussexroyal. We talk about supporting Reading FC
— Kevin Keiley (@Sussexroyal) April 3, 2019