Harry Bretaprins og Meghan Markle hafa endanlega staðfest að þau muni ekki snúa aftur til bresku konungsfjölskyldunnar en rúmt ár er síðan þau tilkynntu að þau kæmu til með að segja sig frá opinberum skyldum innan konungsfjölskyldunnar.
Þau stigu formlega til hliðar síðastliðinn mars og stóð þá til að ákvörðunin yrði endurskoðuð eftir eitt ár. Í tilkynningu frá Buckingham-höll fyrr í dag staðfesti Elísabet Bretadrottning að Harry og Meghan myndu ekki taka við konunglegum skyldum sínum á ný.
„Drottningin hefur staðfest að með því að segja skilið við konungsfjölskylduna er það ómögulegt að halda áfram þeim skyldum og ábyrgðarhlutverkum sem koma með lífi í almannaþjónustu,“ segir í tilkynningu hallarinnar.
Þar kom einnig fram að fjölskyldan væri sorgmædd vegna ákvörðunar Harry og Meghan, en að þau væru þó ávalt hluti af fjölskyldunni og að þau væru elskuð alveg sama hvað.
Harry og Meghan eru nú búsett í Kaliforníu-ríki Bandaríkjanna ásamt syni þeirra, Archie, en þau tilkynntu á dögunum að þau ættu von á öðru barni.
Frá því að þau sögðu sig frá konungsfjölskyldunni hefur ýmislegt á daga þeirra drifið en áætlað er að þau muni ræða við spjallþáttadrottninguna Oprah Winfrey í næsta mánuði um lífið eftir konungsfjölskylduna.
Statement from Buckingham Palace on Prince Harry and Meghan, the Duchess of Sussex: pic.twitter.com/uUU6J9SW02
— Omid Scobie (@scobie) February 19, 2021