Harry og Meg­han hafa rekið allt starfs­fólkið sitt í Bret­landi, fimm­tán talsins. Frá þessu er greint á vef Metro og tekið fram að þetta bendi til þess að þau hyggist al­farið flytjast frá Bret­landi. Þar muni þau því ekki eiga neinar bæki­stöðvar, né vistar­verur í fram­tíðinni.

Í frétt miðilsins kemur fram að starfs­mennirnir fimm­tán hafi þjónu­stað hjónin á skrif­stofu þeirra í Bucking­ham höll. Þeirri skrif­stofu verður nú lokað og var starfs­fólkið látið vita af því í síðasta mánuði. Liggur fyrir að ein­hverjir starfs­mannanna verði færðir til innan konungs­fjöl­skyldunnar á meðan aðrir munu missa vinnuna al­farið.

Tals­maður konungs­fjöl­skyldunnar segist í sam­tali við miðilinn ekki geta tjáð sig um fregnirnar. Her­toga­hjónin hafa búið í Kanada með syni sínum Archie allt frá því í janúar. Þá til­kynntu þau að þau hyggðust segja skilið við konung­legar skyldur sínar í janúar.

Upp­runa­lega vonaðist parið til þess að það gæti gegnt eins­konar tvö­földu hlut­verki innan fjöl­skyldunnar. Sinnt skyldum sínum fyrir konungs­fjöl­skyldua í Kanada en á sama tíma unnið að sínum eigin ferlum. Því var hins vegar hafnað af drottningunni, að því er fram kemur á vef Metro en hug­myndin var talin ó­fram­kvæman­leg.