Elstu vinir Harry Bretaprins eru sagðir hafa átt í miklum erjum við Meghan Markle, eiginkonu prinsins og barnsmóður. Þetta er fullyrt í umfjöllun breska götublaðsins The Sun sem unnin er upp úr nýrri bók um prinsinn.
Bókin er eftir breska rithöfundinn Tom Bower og nefnist því einfalda nafni „Hefnd: Meghan, Harry og stríðið milli Windsoranna,“ (e. Revenge: Meghan, Harry and the war between the Windsors). Þar skrifar Bower meðal annars um tímann árið 2016, örskömmu eftir að heimspressan hafði komist að því að hertogahjónin væru að stinga saman nefjum.
Þar er því lýst hvernig Harry bauð eitt sinn sextán vinum sínum frá Eton skóla í heimsókn, ásamt kærustum þeirra og eiginkonum. Bower segir að Harry hafi ekki getað beðið eftir því að kynna vinina fyrir Meghan og fyrir húmor þeirra.
„Hann hafði ekki gert ráð fyrir því hvernig Meghan myndi bregðast við,“ skrifar Bower. „Brandarar þeirra, margir byggðir á kvenfyrirlitiningu og gagnrýni á femínisma og transfólk fór öfugt ofan í hertogaynjuna. Meghan gagnrýndi hvern og einn einasta vin Harry hispurslaust fyrir brandaranna,“ fullyrðir Bower.
Hann segir að Meghan hafi ekki látið einn einasta óviðeigandi brandara óátalinn. Vinirnir eru sagðir hafa verið lítt hrifnir af gagnrýni hertogaynjunnar.
„Hún eyðilagði partýið. Hún var ekki með neinn húmor og eftir að partýinu lauk voru send SMS skeyti manna á milli þar sem því var meðal annars lýst að Harry hlyti að vera klikkaður að vilja vera með henni.“