Brúðkaup Meghan og Harry prins var óvenjulegt fyrir margar sakir. Sú staðreynd að á gestalistanum voru tvær fyrrverandi kærustur prinsins þykir óvenjuleg. Harry bauð þeim Chelsy Davy og Cressidu Bonas í brúðkaupið sitt en ekki til kvöldveislunnar sem hann og Meghan héldu síðar um kvöldið.

Hin 32 ára Chelsy Davy var æskuást prinsins en samkvæmt heimildarmönnum Daily Mail kom boðið í brúðkaupið henni í opna skjöldu og varð tilefni til tilfinningaþrungins samtals þeirra á milli. Símtalið var lokauppgjör og tók svo á Chelsy að hún hætti næstum við að mæta. Hún furðaði sig á því að hafa ekki verið boðin til kvöldveislunnar en lofaði Harry að gerast ekki boðflenna.

„Þetta hefði getað verið ég“

Það fór ekki fram hjá nokkrum manni að tilfinningarnar báru Chelsy ofurliði þegar æskuástin hennar játaðist annarri konu. Tárvot fylgdist hún með því þegar Harry og Meghan settu upp hringana.

Chelsy hefur ekki tjáð sig opinberlega um það hvort að tárin voru vegna eftirsjá eða feginleika yfir því að hafa sloppið lifandi frá bresku konungsfjölskyldunni.

Ótemja frá Afríku

Chelsy Davy er fædd og uppalin í Zimbabwe en faðir hennar er stærsti landeigandi þar í landi og vellauðugur. Ástarsamband hennar og prinsins hófst árið 2003 og ári síðar var komin nokkur alvara í það.

Hún þótti nokkuð villt og óhefluð og var samband hennar og Harrys nokkuð stormasamt. Skötuhjúin stunduðu skemmtanalífið af miklum krafti og þótti hirðinni nóg um. Prinsinn bauð henni með sér við ýmis tækifæri og var ófeimin við að sjást með henni og þau voru iðulega mynduð bak og fyrir.

Engin trúlofun

En prinsinn dró henni ekki hring á fingur, sambandi þeirra lauk formlega árið 2010, en vinskapur þeirra hefur haldist síðan. Ári eftir sambandsslitin fóru þær sögur á kreik að þau væru að draga sig aftur saman en Harry vísaði því alfarið á bug.

Hann fór síðar í samband með fyrirsætunni og leikkonunni Cressidu Bonas en hún er af breskum aðalsættum. Það ástarsamband stóð í tvö ár eða frá 2012 -2014 og lauk að beggja sögn á vinalegum nótum.

Aðspurður sagði Harry að Meghan hefði samþykkt það að fyrrverandi kærustunum yrði boðið í brúðkaupið.