Harry Breta­prins hótaði í dag breska ríkis­út­varpinu lög­sókn vegna frétta­flutnings miðilsins um að hann hefði ekki beðið Elísa­betu Bret­lands­drottningu um leyfi fyrir því að nefna dóttur sína eftir henni. The Sun greinir frá þessu.

Einungis 90 mínútum eftir að fréttin birtist á vef breska ríkis­út­varpsins gaf prinsinn út til­kynningu. Þar sagði hann að amma sín hefði stutt nafn­giftina, en dóttirin heitir Lilli­bet, sem er gælun­fan drottningarinnar. Parið hefði aldrei notað nafnið annars.

„Her­toginn ræddi við fjöl­skylduna áður en nafnið var til­kynnt og var amma hans í raun sú fyrsta sem hann ræddi við,“ segir í til­kynningu frá tals­manni prinsins.

Í frétt BBC er haft eftir ó­nafn­greindum heimildar­manni innan starfs­liðs hallarinnar að Elísa­bet hafi ekki verið spurð áður en nafnið var til­kynnt. Er þess getið að Lilli­bet sé á­kaf­lega per­sónu­legt drottningunni. Þegar Elísa­bet var smá­barn hafi hún á­vallt sagst heita Lilli­bet, vegna þess að hún hafi ekki getað borið fram nafnið sitt svo lítil.

Er það rifjað upp að afi hennar, Georg konungur hinn fimmti hafi kallað hana þessu nafni í kjöl­farið. Þá kallaði eigin­maður hennar sálugi, Filippus hana ein­göngu Lilli­bet.

Er þess getið í frétt The Sun að heimildar­menn hafi áður sagt að enginn í höllinni hafi verið látinn vita af nafn­giftinni. Það hafi frést þar á sama tíma og annars­staðar í heiminum. Þá er þess getið að ekki hafi komið til­kynning frá höllinni vegna nafnsins á dóttur þeirra fyrr en rúm­lega einum og hálfum tíma á eftir þeirra eigin til­kynningu.

Hefur áður gagn­rýnt BBC vegna móður sinnar

Þá er þess getið í um­fjöllun götu­blaðsins að Harry hafi ný­verið farið hörðum orðum um frétta­flutning breska ríkis­út­varpsins, í að­draganda and­láts móður hans, Díönu prinessu.

„Það sem veldur mér mestum á­hyggjum er að svona vinnu­að­ferðir, og jafn­vel verri, eru enn nýttar víðs­vegar í dag,“ sagði Harry.

„Þá og nú, er þetta stærra en ein frétta­stöð, einn miðill eða eitt dag­blað.“