Harry Bretaprins gæti lögsótt bandarísku streymisveituna Netflix vegna handritsins í fimmtu seríu af The Crown sem kom út á dögunum. Þetta fullyrðir breska götublaðið The Sun.
Segir götublaðið að fimmta serían hafi vakið töluverða reiði vegna handritsins sem álitsgjöfum í Bretlandi þykir fara ansi frjálslega með staðreyndir um konungsfjölskylduna. Þá eykur það hitann í umræðunni að nú gerast atburðir í þáttunum á níunda og tíunda áratugnum, töluvert nær nútímanum í tíma en fyrri seríur af The Crown.
Lætur götublaðið þess getið að handritshöfundar liggi undir ámæli fyrir að ýja að því í fimmtu seríunni að Filippus prins hafi mögulega átt í framhjáhaldi. Þá bregður síðustu augnablikum Díönu prinsessu í París fyrir í fimmtu seríunni.
Lögmaðurinn Lynette Calder segist vera þess fullviss að Harry Bretaprins gæti þurft að lögsækja streymisveituna. Rifjar hún upp að Óskarsverðlaunahafinn Olivia de Havilland hafi lögsótt FX sjónvarpsstöðina fyrir það hvernig hún var leikin í dramamyndinni Feud.
Hún segir að þetta sé áhyggjuefni fyrir streymisveituna þrátt fyrir að Karl konungur hafi meðal annars rætt þættina og sagt það augljóst að þarna séu á ferðinni leiknir dramaþættir en alls ekki heimildarþættir, sem gefi alls ekki fullkomna og rétta mynd af konungsfjölskyldunni.
„Þetta snýst allt um samhengið. Almennt er því sem ætlað er að vera skáldað ekki flokkað sem ærumeiðandi í lagalegu samhengi því fólk veit að þetta er skáldskapur,“ segir lögmaðurinn Lynette.
„Þetta hefur í langa hríð almennt verið afstaðan. Nú erum við hinsvegar að sjá þætti þar sem alvöru viðburðir nær okkur í nútíma og samtöl eru skálduð og þetta hefur orðið að álitamáli innan dómskerfisins.“
Annað að lögsækja og annað að vinna
Bandaríski lögmaðurinn Tre Lovell sem sótt hefur hin ýmsu mál fyrir Hollywood stjörnur er á sama máli og Lynette. Harry geti klárlega lögsótt Netflix vegna The Crown.
„Ef honum þykir sú mynd sem verður dregin upp af honum í The Crown vera ærumeiðandi, eða þykir hún neikvæð og jafnvel fölsk þá getur hann klárlega lögsótt Netflix,“ segir Tre.
„Það er hinsvegar eitt að lögsækja og annað að vinna málið og hver sá sem lögsækir sjónvarpsþáttaframleiðendur á við ramman reip að draga.
Ef þátturinn dreifir lygum um prinsinn þá þyrfti hann að sýna fram á að framleiðendur þáttanna hafi vitað að um var að ræða lygar og hafi samt sem áður ákveðið að framleiða þættina óháð sannleikanum.“