Harry Breta­prins gæti lög­sótt banda­rísku streymis­veituna Net­flix vegna hand­ritsins í fimmtu seríu af The Crown sem kom út á dögunum. Þetta full­yrðir breska götu­blaðið The Sun.

Segir götu­blaðið að fimmta serían hafi vakið tölu­verða reiði vegna hand­ritsins sem á­lits­gjöfum í Bret­landi þykir fara ansi frjáls­lega með stað­reyndir um konungs­fjöl­skylduna. Þá eykur það hitann í um­ræðunni að nú gerast at­burðir í þáttunum á níunda og tíunda ára­tugnum, tölu­vert nær nú­tímanum í tíma en fyrri seríur af The Crown.

Lætur götu­blaðið þess getið að hand­rits­höfundar liggi undir á­mæli fyrir að ýja að því í fimmtu seríunni að Filippus prins hafi mögu­lega átt í fram­hjá­haldi. Þá bregður síðustu augna­blikum Díönu prinsessu í París fyrir í fimmtu seríunni.

Lög­maðurinn Lynette Cald­er segist vera þess full­viss að Harry Breta­prins gæti þurft að lög­sækja streymis­veituna. Rifjar hún upp að Óskars­verð­launa­hafinn Olivia de Havilland hafi lög­sótt FX sjón­varps­stöðina fyrir það hvernig hún var leikin í drama­myndinni Feud.

Hún segir að þetta sé á­hyggju­efni fyrir streymis­veituna þrátt fyrir að Karl konungur hafi meðal annars rætt þættina og sagt það aug­ljóst að þarna séu á ferðinni leiknir drama­þættir en alls ekki heimildar­þættir, sem gefi alls ekki full­komna og rétta mynd af konungs­fjöl­skyldunni.

„Þetta snýst allt um sam­hengið. Al­mennt er því sem ætlað er að vera skáldað ekki flokkað sem æru­meiðandi í laga­legu sam­hengi því fólk veit að þetta er skáld­skapur,“ segir lög­maðurinn Lynette.

„Þetta hefur í langa hríð al­mennt verið af­staðan. Nú erum við hins­vegar að sjá þætti þar sem al­vöru við­burðir nær okkur í nú­tíma og sam­töl eru skálduð og þetta hefur orðið að á­lita­máli innan dóms­kerfisins.“

Annað að lög­sækja og annað að vinna

Banda­ríski lög­maðurinn Tre Lovell sem sótt hefur hin ýmsu mál fyrir Hollywood stjörnur er á sama máli og Lynette. Harry geti klár­lega lög­sótt Net­flix vegna The Crown.

„Ef honum þykir sú mynd sem verður dregin upp af honum í The Crown vera æru­meiðandi, eða þykir hún nei­kvæð og jafn­vel fölsk þá getur hann klár­lega lög­sótt Net­flix,“ segir Tre.

„Það er hins­vegar eitt að lög­sækja og annað að vinna málið og hver sá sem lög­sækir sjón­varps­þátta­fram­leið­endur á við ramman reip að draga.

Ef þátturinn dreifir lygum um prinsinn þá þyrfti hann að sýna fram á að fram­leið­endur þáttanna hafi vitað að um var að ræða lygar og hafi samt sem áður á­kveðið að fram­leiða þættina óháð sann­leikanum.“