Það varð uppi fótur og fit þegar Harry Bretaprins lokaði bílhurð með eigin höndum við komu sína á Invictus íþróttaleiki fatlaðra á þriðjudaginn. Prinsinn hefði samkvæmt konunglegum hefðum átt að láta þjónustulið konungsfjölskyldunnar opna og loka hurðinni fyrir sig. Slík hefur hefðin verið síðan bílar og vagnar voru fundnir upp.

Lífverðir drottningar fórnuðu höndum eftir hurðaskell hertogans sem virtist gefa lítið fyrir konunglegu hefðina. Þá vekur athæfi hans sérstaklega athygli vegna tíðra brota hertogahjónanna á aldargömlum hefðum.

Mynd náðist af Harry við hinn umdeilda hurðaskell.
Fréttablaðið/Getty

Vanvirðing gagnvart konungsfjölskyldunni

Meghan Markle, eiginkona Harry, gerðist sek um sama brot þegar hún lokaði bílhurð á eftir sér fyrir ári. Slúðurmiðlar hins ytra hikuðu ekki við að saka Meghan um vanvirða bresku konungsfjölskylduna með því að neita að fara eftir óskrifuðum reglum sem gilda um meðlimi fjölskyldunnar.

Þá sæta Meghan og Harry stöðugri gagnrýni fyrir að vilja aðskilja sig konungsfjölskyldunni meðal annars með því fylgja ekki konunglegum hefðum. Meghan hefur til dæmis notað svart naglakk og mæta á viðburði í fylgd eiginmanns síns í gallabuxum, sem er að sögn breskra miðla stranglega bannað.

Aðdáendur parsins segja þetta hins vegar benda á hógvært eðli parsins og hrósa þeim óspart fyrir að stíga út fyrir ramma konungsfólksins. Það virðist því ekki hafa komið að sök að Meghan og Harry bregði af vana kóngafólksins.

Hér má sjá Meghan sem virðist vera ánægð með að fá að loka hurðinni.
Fréttablaðið/Getty