Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan Markle eru þessa dagana í opinberri heimsókn í Eyjaálfu. Harry flutti ávarp í bænum Dubbo. Á meðan Harry flutti ræðu sína hófst mikið úrhelli sem bændur á svæðinu hafa eflaust tekið fagnandi. Því þeir hafa verið að glíma við mikla þurrka og uppskerubrest í kjölfar þeirra. 

Harry hvatti bændurna á sama tíma til að hugsa vel um hvor annan. Hann fjallaði um háa tíðni sjálfsvíga, sérstaklega á meðal ungra karlmanna.

„Við vitum að sjálfsvígstíðni í dreifbýli er hærri en í þéttbýli og þetta á sérstaklega við um unga karlmenn sem búa í dreifbýli,“ sagði Harry í ávarpi sínu. Greint er frá á ástralska miðlinum News.com.au.

Hvatti þau til að leita sér aðstoða

Hann opnaði sig um sína eigin geðheilsu og hvatti fólk til að leita sér aðstoðar líði þeim illa. 

„Það eina sem þú þarft að gera er að biðja um hana. Spurðu nágranna, jafningja þína. Næsti bóndi er aðeins handan við hornið. Líkur eru á að þeir þjáist líka og myndu hafa gagn af því að hlusta eða tala sjálfir,“ sagði Harry og bætti við að það að vera sterkur þýði líka að maður hafi hugrekki til að biðja um hjálp þegar maður þarf á henni að halda.

„Þú þarft ekki að þjást í hljóði. Þið eruð öll í þessu saman, og ef ég tala frá persónulegri reynslu, þá erum við öll saman í þessu, því það var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að biðja um aðstoð,“ sagði Harry.

Invictus-leikarnir um helgina

Um helgina fara fram Invictus leikarnir. Leikarnir eru alþjóðleg íþróttakeppni þar sem fyrrum hermenn sem hafa slasast eða veikst við herþjónustu keppa í fjölmörgum íþróttagreinum. Harry og Meghan sáust fyrst saman opinberlega á Invictus-leikunum í fyrra. Stuttu síðar tilkynntu þau um trúlofun sína.