Harry Bretaprins hefur aldrei verið hamingjusamari, heilbrigðari og ánægðari með lífið eftir að hann giftist Meghan Markle að því er ónefndur náinn vinur hans segir í samtali við Vanity Fair og er ljóst að breytingin kemur honum nokkuð á óvart.

Harry, sem eitt sinn var þekktur fyrir ofstopafullt líferni, mikið partýstand og umdeilda nasistagrímubúninga, er nú hættur að reykja, farinn að borða hollan mat og stunda jóga af krafti en Meghan er mikill aðdáandi jóga og hefur haft jákvæð áhrif á kappann.

„Við áttum aldrei von á því að Harry myndi missa sig yfir jóga en hann gjörsamlega elskar það,“ segir einn ónefndra vina Harry. „Hann lítur vel út, hann hefur létt sig, er fáránlega heilbrigður og ég held að hann sé gífurlega hamingjusamur þó ég sé viss um að hann sakni þess að grípa stundum í bjór með okkur gömlu félögunum.“

Harry er ótrúlega spenntur fyrir föðurhlutverkinu og samkvæmt vin hans er hann enn að átta sig á nýfenginni hamingju. „Ég trúi því enn ekki hvað ég er heppinn,“ sagði hann nýlega við umræddan vin.

Bresku götublöðin hafa að undanförnu gert sér gífurlegan mat úr samskiptum Meghan Markle og svilkonu hennar Kate Middleton en bandarískur blaðamaður hefur furðað sig á umfjöllun breskra miðla um hertogaynjuna.