Harry Breta­prins hyggst lög­sækja bresk stjórn­völd fái hann ekki að nýju þá vernd sem hann átti rétt á áður en hann sagði skilið við bresku konungs­fjöl­skylduna. Hann segir allt koma til greina til þess að fá verndina aftur, meðal annars lögsókn.

Í um­fjöllun breska götu­blaðsins The Sun segir að drottningin muni ekki verða við óskum prinsins. Harry missti rétt á vernd bresku lög­reglunnar eftir að hann og Meg­han sögðu skilið við konungs­fjöl­skylduna í mars 2020.

Breska götu­blaðið segir að Harry hafi fengið þau svör frá bresku konungs­fjöl­skyldunni að laga­lega séð sé ekkert sem þau geti gert fyrir hann. Breskir lög­reglu­þjónar séu ekki og geti ekki starfað sem líf­verðir fyrir hina ríku og frægu, heldur er það ein­göngu konungs­fjöl­skyldan sem á rétt á vernd þeirra.

Nokkuð ljóst er að ætli Harry sér að fá sínu framgengt muni hann því þurfa að leita réttar síns. Harry hefur verið tíð­rætt um öryggi sitt og fjöl­skyldu sinnar. Sagði hann meðal annars við Opruh Win­frey í heims­frægu við­tali í fyrra að hann hefði verið sár yfir því að konungs­fjöl­skyldan hefði svipt hann réttindum til að njóta slíkrar verndar.