Saga hárkollunnar byrjar, eins og svo margar sögur, á sárasótt. Árið 1580 var sjúkdómurinn orðinn einn versti faraldur sem riðið hafði yfir Evrópu frá svarta dauða. Gríðarlegur fjöldi sjúklinga troðfyllti sjúkrahús í London og nýir bættust við daglega. Þar sem sýklalyf voru ekki í boði þurftu sjúklingarnir að takast á við sjúkdóminn af fullum þunga. Einkenni voru opin sár, slæm útbrot, blinda, minnisglöp og skallablettir. Skallafaraldur heltók Evrópu. Á þessum tíma þótti skalli mikil skömm. Sítt hár var stöðutákn og bert höfuð gat auðveldlega valdið fólki álitshnekki.

Samuel Pepys, enskur embættismaður sem er í dag þekktastur fyrir dagbókarskrif sín á 17. öld, skrifaði eitt sinn í dagbók sína, þegar bróðir hann veiktist af sárasótt: „Ef hann lifir þetta af mun hann ekki geta sýnt á sér höfuðið, sem verður mikil skömm fyrir mig.“ Þessi skrif sýna hvað hár skipti gríðarlega miklu máli á þessum tíma.

Hárkollur voru í tísku í um það bil tvær aldir, aðallega hjá efri stéttunum.

Þessi skömm á hárleysi varð til þess að hárkollugerð jókst til muna í kjölfar sárasóttarfaraldursins. Sjúklingarnir földu skallann og andlitssárin með hárkollum búnum til úr hesta-, geita- og mannshári. Hárkollurnar voru þaktar púðri með appelsínu- eða lavenderilm til þess að fela alla ólykt. Þrátt fyrir að þær væru algengar voru hárkollurnar ekkert sérstaklega fallegar. Þær voru bara skammarleg nauðsyn. En það breyttist árið 1655 þegar konungur Frakklands fór að missa hárið.

Tískukóngarnir lögðu línurnar fyrir almúgann

Loðvík XIV var ekki nema 17 ára gamall þegar hár hans tók að þynnast. Áhyggjufullur yfir því að skalli myndi skaða mannorð hans, réði hann 48 hárkollugerðarmenn til starfa til að bjarga ímynd sinni. Fimm árum síðar gerði Karl II Englandskonungur og frændi Loðvíks slíkt hið sama, þegar hár hans byrjaði að grána. Það er talið líklegt að báðir hafi verið með sárasótt. Fólk við hirðina og annað aðalsfólk fór strax í kjölfarið að skarta hárkollum til að herma eftir kóngunum. Tískan smitaðist síðan niður í efri millistétt og nýjasta æðið í Evrópu leit dagsins ljós.

Verð á hárkollum hækkaði og þær urðu tákn ríkidæmis. Hversdagshárkolla kostaði um 25 skildinga, sem voru vikulaun hins almenna Lundúnabúa. Verðið fyrir stórar glæsilegar hárkollur fór upp í allt að 800 skildinga. Fólk sem hafði efni á að kaupa stórar íburðarmiklar hárkollur notaði þær til að sýna ríkidæmi sitt.

Tískukóngurinn Loðvík XIV réði til hirðarinnar fjörutíu og átta hárkollugerðarmenn þegar hann fór að missa hárið aðeins sautján ára gamall.

Eftir andlát þeirra Loðvíks og Karls héldu hárkollurnar enn velli vegna þess hve hagkvæmar þær voru. Þetta var á tímum þegar lýs voru alls staðar og tímafrekt og erfitt var að kemba hárið. Hárkollur héldu vandanum í skefjum. Til að hárkollurnar pössuðu varð fólk að raka af sér hárið og þar af leiðandi sóttu lýsnar ekki í það. Þær komu sér aftur á móti fyrir í hárkollunum en mun auðveldara var að losna við þær þaðan. Hárkollurnar voru einfaldlega sendar til hárkollugerðarmannsins sem sauð kolluna og losaði hana þannig við lúsanitin.

Seint á 18. öld var tískan við það að deyja út. Almenningur í Frakklandi kom kollunum frá í byltingunni og Bretar hættu að nota kollurnar þegar stjórnvöld ákváðu að skattleggja hárpúðrið. Stutt náttúrulegt hár var næsta æðið hjá karlmönnum og var það áfram næstu tvær aldirnar, svona hér um bil.