Björn Birgisson, heldri borgari í Grindavík og afkastamikill samfélagsrýnir á Facebook, setti af stað harðfiskshappdrætti á samfélagsmiðlinum í upphafi Evrópumeistaramótsins í handknattleik.

Leikurinn gengur einfaldlega út á að fólki býðst að giska á lokatölur í leikjum íslenska landsliðsins og fá að launum harðfiskspoka. Reynist fleiri en einn sannspáir er harðfiskshafinn dreginn út eins og sönnu happdrætti sæmir.

„Ég einsetti mér að gefa þessa flottu harðfiskpoka sem vinning eftir hvern leik,“ segir Björn sem í ljósi góðrar byrjunar íslenska liðsins sér fram á ákveðin vandræði.

„Á þessari stundu veit enginn hversu langt liðið nær og hve margir leikirnir verða og staðan gæti orðið sú að piltarnir okkar væru orðnir Evrópumeistarar og ég gjaldþrota!“

Vel yfir 100 manns freistuðu þess að fá gefins harðfisk með því að giska á hverjar yrðu lokatölurnar í fyrsta leik liðsins án þess að nokkur hefði rétt fyrir sér.

Gerbreytt staða blasti við Birni eftir 29-28 sigur Íslands á Hollandi í fyrrakvöld. „Þrír giskuðu rétt í gær! Ég spila þetta bara eftir eyranu og hleð í harðfiskhappdrætti þegar vel liggur á mér,“ segir Björn sem ætlar að endurtaka leikinn í kvöld þegar Ísland mætir Ungverjalandi.

Þá spyr Björn sem fyrr: Hver verða úrslit leiksins? Og svara á með markatölu Íslands á undan markatölu andstæðinganna. „Miðinn kostar ekkert og vinningslíkur býsna góðar. Svo geta allir sem verða fyrir vonbrigðum og vinna ekkert alltaf bætt sér vonbrigðin upp með því að hafa samband og tryggja sér góðmetið!“ segir Björn sem er auðfundinn undir nafni sínu á Facebook þar sem hann tekur nú við pöntunum frá þeim sem vilja hitta á hann á föstudaginn, fyrsta degi þorra, þar sem hann verður fyrir framan Blindrafélagið í Hamrahlíðinni klukkan 13 með ýsu. þorsk, mylsnu og þorskroð.