Þótt framhaldið af Venom komi ekki í kvikmyndahús fyrr en í haust er Tom Hardy strax farinn að undirbúa sig fyrir þriðju myndina í röðinni.

Venom: Let There Be Carnage verður frumsýnd í september, en að sögn Hardys eru framleiðendur myndarinnar mjög ánægðir með hana og allt bendir til að sú þriðja verði gefin út.

Venom gerði  góða hluti þegar hún kom út árið 2018 og halaði inn um 850 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu og má því ætla að framhaldið muni líka trekkja að. Persónan Venom var upphaflega einn helsti andstæðingur Köngulóarmannsins, en þeir hafa ekki mæst á hvíta tjaldinu síðan 2007 sökum höfundarréttar, en Venom er ekki hluti af kvikmyndaheimi Marvel.

Hardy er þó vongóður um að það gæti gerst einhvern tímann í framtíðinni. „Ef báðir aðilar eru til þá sé ég ekki hvers vegna það gæti ekki gerst,“ sagði Hardy aðspurður um möguleikann.