„Þetta er 64 blaðsíðna útdráttur úr skýrslu minni á ensku fyrir fjármálaráðuneytið, sem ég skilaði haustið 2018. Þá birti ég nokkrar blaðagreinar um skýrsluna, og þetta er endurskoðuð og aukin útgáfa þeirra,“ heldur Hannes áfram um bókina Bankahrunið 2008 Útdráttur úr skýrslu.

Skýrslan sem um ræðir er vitaskuld, The 2008 Icelandic Bank Collapse: Foreign Factors, sú umtalaða og jafnvel umdeilda sem Hannes tók saman fyrir fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið og var skilað haustið 2018.

Hannes segist aðspurður telja þennan útdrátt henta þeim vel sem ekki hafa lesið skýrsluna sjálfa en vilji kynna sér innihald hennar betur. „Þetta er stutt og aðgengilegt, en með tilvísun í allar heimildir og afrakstur margra ára rannsókna.“

Hvað helstu niðurstöður varðar segir hann að í fyrsta lagi hafi beiting breskra hryðjuverkalaga á Íslendinga í bankahruninu 2008 verið í senn „ruddaleg og óþörf og kraftaverk, að ekki varð hér neyðarástand.“ Þá telur hann meginskýringuna á því að „á Íslandi breyttist kreppa í hrun, að seðlabankar í Evrópu og Bandaríkjunum hafi neitað Íslendingum um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og aðrar Norðurlandaþjóðir fengu.“ Í þriðja lagi hafi „viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu verið skynsamleg, en framkoma sumra grannríkja þeim til minnkunar.“

Er þá nokkuð nýtt í þessu riti?

Já, sumt af því, sem ég segi, hefur ekki vakið athygli, þótt það sé mjög merkilegt,“ segir Hannes og nefnir að svo virðist sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist hafa vanrækt það hlutverk sitt „að gæta þess ein lög gildi um alla, því að Bretar gátu átölulaust veitt öllum breskum bönkum lausafjárfyrirgreiðslu nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Þetta var hrottaleg mismunun. Þá er líka frétt, að báðir þessir bankar reyndust eiga vel fyrir skuldum ólíkt sumum þeim bönkum, sem Bretastjórn bjargaði.“