Kristín er menntaður förðunarmeistari og lærði förðun í London fyrst þegar hún var 16 ára. „Ég hef kennt förðun í meira en 35 ár, ég kenndi lengi við FB, stofnaði meðal annars NoName makeup skóla og Snyrtiakedemíuna. Ég hef misst tölu á hversu marga nemendur ég hef útskrifað. Það er hægt að segja að allt tengt förðun sé stórt áhugamál mitt. Það er fyndið að segja frá því en ég gaf út eina fyrstu förðunar-spóluna á VHS á sínum tíma,“ segir Kristín og hlær.

Fann saumakonu í Úkraínu

Aðspurð segir Kristín að sig hafi lengi langað til að hanna sína eigin fatalínu. „Þetta er ferli sem getur tekið ótrúlega langan tíma. Ég ákvað að leita út fyrir landsteinana og auglýsti inni í hóp fyrir frumkvöðla í Evrópu eftir saumastofu sem gæti unnið með mér. Ég fékk svar frá Veru sem er frá Úkraínu og er með saumastofu þar. Vera er mikill frumkvöðull og rekur sitt eigið fyrirtæki, við tengdumst strax og hófum samstarf. Línan átti að koma til Íslands í febrúar og fara í sölu síðasta vor. Það var mikið áfall fyrir okkur þegar stríðið hófst þar sem ég tala mikið við Veru og á þessum tíma sendi hún okkur daglega talskilaboð um hvernig væri hjá þeim.

Ég var búin að afskrifa alveg línuna, það var allt tilbúið hjá henni en hún flúði höfuðborgina og það eina sem við gátum hugsað var hvort Vera og fjölskyldan væri örugg. Vera vill vera innan Úkraínu með fjölskyldu sinni en þau flúðu upp í fjöll og eru í smábæ, hún hjálpaði samstarfsfólkinu sínu og fjölskyldum þess að flýja og eru þau með þeim í þessum smábæ. Fyrirtæki hennar saumar fyrir önnur vörumerki í Evrópu og fluttu þau stofuna með sér. Við töluðum mikið við hana en hún sagði að það besta fyrir þau væri að halda áfram samstarfi við stofuna og styðja við þau. Við urðum svo hissa þegar allir kassarnir komu til landsins í sumar.“

Fatalínan er kvenleg og tekur tillit til mismunandi líkamsvaxtar.

Eigin stíll fyrirmyndin

Innblásturinn fyrir nýju línuna var búinn að vera til staðar í mörg ár. „Ég hef verið að hugsa í mörg ár um að gera fatalínu. Það hefur alltaf verið draumurinn. Ég stend vaktina reglulega í versluninni og finnst fátt jafn skemmtilegt eins og þegar konur finna flíkur þar sem þeim líður vel í. Ég myndi segja að konurnar mínar, vinkonur og viðskiptavinir séu helsti innblásturinn minn.“

Stíllinn er í raun og veru stíllinn hennar Kristínar. „Þetta er svolítið minn stíll, stíllinn minn er þægileg og falleg föt, ég er oft í víðum flíkum enda vil ég ekki að eitthvað þrengi óþægilega að mér. Mér finnst samt mjög erfitt að negla niður einhvern einn stíl. Ég er mikið í flottum jökkum og blússum en síðan elska ég kaftan-kjóla og kímónóa. Ég er oft í svörtu eða bláu en síðan í einhverju rosalega litríku með skrautsteinum. Mér finnst maður eiga bara að klæða sig alls konar, bara á meðan manni líður vel. Kaftan-kjólar eru í miklu uppáhaldi núna enda eru þeir mjög víðir og oft úr þægilegu efni. Ég stefni á að finna rétta efnið og útbúa þannig kjól í línunni fyrir jólin.“

María, Kolla, Kristín, Dísa, Sigrún, samstarfskonur Kristínar fögnuðu nýju línunni saman en Kristín segir að konurnar kringum sig hafi veitt sér innblástur fyrir hönnun nýju línunnar.

Klassísk, tímalaus og smart

Þegar Kristín er spurð hver eigi heiðurinn af hönnuninni er hún fljót að svara því. „Ég myndi segja að konurnar mínar eigi heiðurinn, þær eru drifkrafturinn og hvetja mig áfram í öllu sem ég geri. Ég skissa upp allar flíkurnar og sendi síðan á Veru sem saumar fyrir mig. Hún sendir mér alltaf prufur og ég breyti svo flíkunum. Þetta er langt ferli og þar sem saumakonan mín er í Úkraínu þá þarf oft að senda prufuflíkurnar nokkrum sinnum fram og til baka.“

Kristín leggur mikla áherslu á að línan sé tímalaus og dugi lengi. „Línan er klassísk, smart og tímalaus. Þetta eru flíkur úr þægilegu og góðu efni. Það skipti mig miklu máli að efnin væru góð og flíkin myndi duga í mjög langan tíma. Efnisvalið er alltaf mjög erfitt, Vera fer og kaupir prufur úti um alla Evrópu og sendir hingað til Íslands. Ég er mjög vandvirk við val á efnum og passa að þau séu ávallt gæða efni.“

Fjölbreytni í stærðum skiptir Kristínu líka miklu máli. „Ég vildi hafa fjórar stærðir í línunni. Minnsta stærðin hentar best fyrir konur í stærð 40-42 og stærð fjögur passar fyrir stærð 52+. Ég er náttúrulega kona með góðar mjaðmir og maga þannig að línan byggist á því. Það er stundum erfitt fyrir mismunandi líkamstýpur að finna sér flíkur. Merki gera oft ekki ráð fyrir stórum barmi eða miklum mjöðmum. Ég vildi hafa allar flíkurnar þannig að þær falla fallega að líkamanum og klæða flesta.“

Fallegt og kvenlegt dress.

Frumkvöðull á sínu sviði

Kristín segir það vera spennandi áskorun að vera bæði komin með snyrtivöru- og fatalínu undir sínu eigin vörumerki. Þetta hafi ávallt verið draumurinn sem nú hefur loksins ræst. „Þetta er allt mjög spennandi og stækkun hjá NoName ehf. Ég er mjög heppin með frábært starfsfólk og fyrir einu og hálfu ári síðan réð ég inn markaðsstjóra, Margréti Guðjónsdóttur, sem er menntuð vörumerkjastjóri. Við höfum síðan verið að vinna mjög markvisst að því að stækka NoName vörumerkið. Í fyrra stækkaði snyrtivörulínan og við eigum núna snyrtivörur fyrir alla aldurshópa. NoName Beauty er merki sem er með öll tækin okkar, eins og sléttujárn, hitarúllubursta, töfratækið og augabrúnasnyrtinn. Þetta eru allt tæki sem eru framleidd undir okkar nafni, með tveggja ára ábyrgð og koma með íslenskum leiðarvísi. Ég hef alltaf verið mikill frumkvöðull og verið í fyrirtækjarekstri. NoName Design er merkið sem ég hef lengi verið að vinna að og núna er fatalínan komin í sölu og gleðin leynir sér ekki. Þetta hefur verið draumur lengi og að sjá litla vörumerkið mitt, NoName, stækka er frábær tilfinning.

Viðtökurnar hafa verið alveg framúrskarandi. „Maður er bara í hálfgerðu spennufalli. Það er fátt sem lýsir því þegar konurnar koma í verslunina, máta flíkurnar og eru glaðar. Ég var orðin stressuð áður en línan kom í sölu en það er maður auðvitað alltaf þegar maður leggur svona hart að sér. Þegar við vorum búnar í myndatökunni og vorum að skoða myndirnar þá var ég bara hálf orðlaus. Þetta er bara allt svo flott! Ég hlakka til að kynna jólalínuna og bæta fleiri flottum NoName konum í hópinn okkar sem stækkar ört,“ segir Kristín að lokum spennt fyrir komandi tímum.