Laufey og Ómar búa í Seljahverfinu, grónu og friðsælu hverfi, og eru fjögur í heimili. „Við hjónin, Alda, dóttir okkar, og Andri, kærastinn hennar. Einnig er litli terrier-hundurinn okkar, Hekla, mikilvægur hluti af fjölskyldunni. Eldri börnin eru farin að heiman, en þau tvö sem búa á Íslandi koma oft í heimsókn með barnabörnin. Fjölskyldustundirnar eru okkur mikilvægar og eru samverustundirnar úti orðnar fleiri og enn skemmtilegri eftir að við stækkuðum pallinn við húsið.“

Pergólur sem mynda skjól

Þau voru strax með ákveðnar hugmyndir um hvernig aðstöðu þau vildu hafa á pallinum. „Þegar við fórum af stað vissum við að við vildum hafa pallinn bæði sem slökunar- og sólbaðsaðstöðu, stað þar sem barnabörnin (og við) gætu leikið sér, og með góða aðstöðu til að grilla og matast. Var því ljóst að hann myndi stækka töluvert. Við höfum ferðast til Grikklands oftar en einu sinni og þar höfðum við heillast af svokölluðum pergólum. Er það svæði þar sem eru súlur með þaki, notalegir sófar og borð eru undir og mynda þær gott skjól. Hægt er að eiga þar góða stundir, jafnvel þó ekki sé brakandi blíða. Fannst okkur mikilvægt að hafa svoleiðis svæði svo pallurinn nýttist betur.“

Okkur langaði í gas útieldstæði með borðplötu svo hægt væri að hafa smá snarl og drykki við hendina, en við höfðum séð svoleiðis erlendis, segir Ómar. Ekki amaleg aðstaða fyrir stelpuboð.

Ómar smíðaði pallinn sjálfur

Hönnunin á pallinum var að mestu í höndum Ómars. „Enda er hann með reynslu, búinn að gera pall áður við húsið sem við áttum í Súðavík. Hann var einnig aðalsmiðurinn en fjölskyldan kom samt öll að verkinu. Friðrik, sonur okkar, kom sterkur inn og eins komu vinir tengdasonarins einn dag og hjálpuðu til. Þetta var spennandi ferli sem vinum og vandamönnum fannst gaman að fylgjast með og einnig kynntumst við nágrönnunum betur þar sem smíðin vakti athygli og vegfarendur stoppuðu í spjall, enda stærðargráða pallsins aðeins meiri en almennt hefur kannski verið,“ segir Laufey.

Ómar og Laufey segja það muna miklu fjárhagslega að gera þetta sjálf. „Vissulega þurfti að kaupa gröfuþjónustu þegar verið var að undirbúa smíðina, en fjármunirnir sem spöruðust voru miklir.“

Útiveran aukist til muna

Lífsgæði fjölskyldunnar hafa aukist með þessa aðstöðu út við og ófáar stundirnar eru nýttar til að snæða utandyra. „Fyrir utan að manni finnst húsið hafa stækkað heilmikið og hægt að bjóða í skemmtilegar veislur þar sem stórfjölskyldan og vinir rúmast vel, hefur útivera aukist til muna og ófáir kaffibollarnir sem eru drukknir á pallinum, hvort sem er í morgunsólinni eða á öðrum tímum dagsins. Litlu afa- og ömmubörnin hafa líka æft sig að hjóla þar og farið í boltaleiki og annað skemmtilegt og eins er notalegt að borða úti undir berum himni. Það er óhætt að segja að pallurinn og allt sem honum fylgir veiti okkur mikla ánægju.“

Hannaði borð fyrir kósíhornið

Ómar gerði sér lítið fyrir og hannaði útieldstæðisborð sem þau hafa komið fyrir undir pergólum sem nýtist allan ársins hring. „Það er mjög mikið sport að grilla sykurpúða með barnabörnunum við útieldstæðisborðið sem við smíðuðum og er á pergólusvæðinu sem er mikið notað. Setjast þar við spjall með drykk í bolla eða glasi er líka himneskt, enda ylurinn frá eldstæðinu og snarkið í eldinum svo notalegt að maður getur setið endalaust,“ segja hjónin og eru einstaklega ánægð með kósísvæðið sitt.

Aðspurður segir Ómar að hugmyndin bak við hönnunina á útieldstæðinu hafi í raun verið óskhyggja þeirra. „Okkur langaði í gas-útieldstæði með borðplötu svo hægt væri að hafa smá snarl og drykki við höndina, en við höfðum séð svoleiðis erlendis. Þegar við fórum að leita að svona útieldstæði komumst við að því að við gátum ekki fengið slíkt hér heima, svo það var ekkert annað í stöðunni en að gera það sjálf.

Þegar við höfðum klárað sólpallinn buðum við til veislu og þegar fólk sá eldstæðið töluðu margir um að þá langaði í svona. Þá langaði okkur til að leyfa öðrum að njóta og fórum í að finna samstarfsaðila til að vinna með okkur.“

Í dag eru þau búin að stofna fyrirtæki og selja þetta forláta útieldstæði í nokkrum útgáfum. „Á heimasíðunni okkar, eldsteinar.‌is, er hægt að kaupa fullbúið eldstæðisborð, sem samanstendur af borðstandi sem borðplatan situr á, borðplötu og eldstæðisbúnaðinum og erum við með tvær tegundir af fullbúnum eldstæðisborðum.

Borðstandarnir sem við bjóðum upp á geta verið úr sótuðu íslensku lerki, sem kemur frá Skógarafurðum eða úr furu. Borðplöturnar geta verið steinplötur sem gerðar eru af Íslandshúsum eða granítborðplötur frá Fígaró.“

Viðskiptavinir fá síðan eldstæðið uppsett á pallinn hjá sér og er sá kostnaður innifalinn í verðinu. „Eldstæðispönnurnar og aðra íhluti flytjum við inn frá viðurkenndum aðilum, enda mjög mikilvægt að gaseldstæði séu örugg. Viðskiptavinir geta einnig keypt sér íhlutina og gert sitt eigið útieldstæðisborð. Miklu máli skiptir þá að fá fagmann til að sjá um tengingar á gasbúnaðinum,“ segir Ómar.

Auðvelt í notkun

Notkunin á útieldstæðinu er einföld og þægileg. „Það er jafn auðvelt og að nota gas-útigrill en borðin eru þó ekki til að grilla kjöt eða fisk. Einnig er kosturinn við að nota gas-útieldstæði að þá er engin lykt eða reykur.

Við bjóðum einnig upp á sérsniðnar ábreiður fyrir eldstæðin, þannig að þegar það er ekki í notkun er gott að breiða yfir það en hægt er að nota eldstæðisborðið allt árið um kring.“

Þetta er skemmtileg nýjung á Íslandi, er gríðarlega vinsælt í Bandaríkjunum, og einnig eru þau orðin mjög vinsæl víða í Evrópu, allt með það að markmiði að nýta útisvæðin sín betur og lengur. „Eldstæðisborð eru einnig mjög vinsæl hjá hótelum, veitingastöðum og öðrum þjónustustöðum þar sem þörf er á að skapa skemmtilegt andrúmsloft fyrir gestina.“