Jóhanna uppalin á Seltjarnarnesi þar sem hún nærðist af nálægð við náttúru og ólgusjó. Ung ferðaðist hún á milli heimsálfa á millilandaskipi sem pabbi hennar, Gudmundur Jóhannsson, vélstjóri vann á. Móðir Jóhönnu er Sigrún Jóhannsdóttir og á hún fimm systur. Fjölskyldan dvaldi um árabil í Asíu og þar af lengst á Indlandi. Jóhanna naut sín best á ferð og flugi um heiminn og varði skemmstum tíma á Íslandi og kom það því engum á óvart þegar hún á unga aldri ákvað að sækja nám til Parísar ásamt vinkonu sinni. Jóhanna settist síðar að á Flórída þar sem að ástin kallaði hana vestur um haf, og hefur Jóhanna búið á Miami í ein 35 ár ásamt eiginmanni, tveimur sonum og hundinum Heal. Jóhanna starfaði hvað lengst af við verslun og viðskipti og vinnur í dag sem innkaupastjóri hjá fyrirtæki sem að þau hjónin reka ásamt því að sinna áhugamáli sínu af fullum krafti núna fyrir jólin og er það ástæðan fyrir því að hún er stödd hér á landi.

Jóhanna Guðmundsdóttir fö#2.jpg

Notalegt að kveikja á góðu ilmkerti

Jóhanna segir skemmtilega frá kertaævintýrinu sem að hófst í miðjum Covid heimsfaraldri og vísaði henni inn á nýja og spennandi braut. Hún er hér í stuttu stoppi en hyggst halda áfram í kertagerð bæði hér heima og í Bandaríkjunum, helst með fjóra hunda og einn kött. „Ég hef alltaf verið mikið fyrir ilmkerti og hef gjarnan gefið góð kerti við hin ýmsu tækifæri og svo þegar Covid skall á þá sökkti ég mér bara í að kaupa kerti frá hinum ýmsu framleiðendum. Mér fannst eitthvað svo notalegt að hveikja á góðu ilmkerti og ég er ekki frá því að það hafi verið í einhverskonar tilgangi til að róa sjálfa mig í þessum heimsfaraldri sem hertók heiminn með mikilli óvissu og hræðslu. Mér leið vel í nálægð við logandi ilmkerti. Ilmurinn faðmaði mig svo vel.“ Jóhanna var því orðin alveg heilluð af ilmkertunum og þau hreinlega tóku yfir. „Svo gerðist það á afmælinu mínu fyrir rúmu ári að fjölskyldan mín tók upp á því að kaupa handa mér allt hráefni sem þurfti til kertagerðar. Ég held að manninum mínum hafi verið farið að blöskra allar kertasendingarnar sem streymdu inn um lúguna og fannst því kominn tími til að ég færi að föndra mín eigin kerti,“segir Jóhanna og hlær.

FBL Jóhanna Guðmundsd föndurkerti 1.JPG

Heimilið varð að tilraunastofu

Þetta sló alveg í gegn hjá Jóhönnu og hóf hún strax handa næsta dag við kertagerð. „Það tókst ekki vel. Kertin voru heil hörmung, þrátt fyrir góð ráð á gúgul. Annaðhvort kviknaði ekkert á kertunum eða þau brunnu of mikið. Ekki nóg ilmolía eða alltof mikil. Þetta þarf allt að vera í réttum hlutföllum og mælieiningum til að út komi gott kerti.“

Heimilið varð að tilraunastofu sem Jóhönnu tókst að kveikja í nokkrum sinnum. „Sem betur fer var það ekkert alvarlegt svo áfram var haldið og hef ég nú verið að þróa kertagerð í rúmt ár. Heimilið var gersamlega undirlagt af allskonar vaxi, ilmolíum, krukkum, kveikjum og fullunnum kertum sem brunnu víðsvegar í húsinu, að minnsta kosti einn ilmur í hverju herbergi. Öll borð yfirtekin og ekkert mátti hreyfa vikum saman.“

Eiginmaðurinn þurfti nánast að flytja út

„Það vill svo vel til að við búum á Florída og þurfti eiginmaðurinn ósjaldan að labba með kaffibollann sinn út í garð til að geta lagt hann frá sér. Honum óraði ekki fyrir því að afmælispakkinn yrði til þess að hann þyrfti nánast að flytja út,“segir Jóhanna sposk á svipinn. „Fljótlega í tilraunum mínum fór ég að átta mig á því að ég var sokkin í nýtt verkefni og kertagerð yrði mitt næsta starf og var sú ákvörðun innsigluð þegar ég heyrði manninn minn segja vini sínum í símann að ég væri að leika mér með kerti alla daga og þar með var ekki aftur snúið. Ég skildi nú sýna þeim að þetta væri hin mesta alvara og ég væri að fara í rekstur. Í framhaldi var viðskipta-hatturinn settur upp. Ég pantaði allar þær bækur sem að ég gat grafið upp um kertagerð, ilmoliur og ilmkjarnaolíur. Ilmvötn og ilmvatnsgerð og gúglaði mig ferkantaða í framan. Síðan var unnið að viðskiptamódeli og kertagerð skipulögð fyrir alvöru. Fleiri tilraunir voru gerð og nú voru hlutirnir skráðir niður.“ Í framhaldi hafði Jóhanna svo samband við systurdóttur sína, Sigrúnu Ýr Hjörleifsdóttur en hún var og er hennar hægri hönd. „Hún gerir allt vel sem að ég kann ekki, en hún er vinstri heilinn í þessu verkefni ásamt því að vera orðin öflugur kertagerða-meistari.“

Jóhanna Guðmundsdóttir  (4).jpg

Innblásin af krummanum sem varð vörumerkið

Hvaðan kom innblásturinn að föndurkössunum? „Við frænkurnar unnum dag og nótt í gegnum facetime og zoom í skipulagningu á nýju kerta-vörumerki. Hugmyndirnar urðu ansi margar og erfitt að velja úr svo við ákváðum að bæta byKrummi við Reykjavik Candle Co. í þeim tilgangi að geta sett fleiri vörumerki undir sömu regnhlíf sem er byKrummi, en krumma nafnið kom eiginlega til mín eftir að ég hafði lokið bókaklúbbsfundi á netinu með hópi af fólki frá Kanada, þar sem spurningu um stöðu krummans í íslensku samfélagi í dag var velt fyrir sér samanborið við í gamla daga og þar með sat krumminn eftir í kollinum á mér og endaði svo sem vörumerkið okkar.“ Jóhanna fékk svo frænku sína til að teikna krumman inn í tölvutækt form. „ Prenta hann á pappír, klippa út og líma á skókassa. Reykjavík Candle Co. byKrummi varð þannig að raunveruleika.“

FBL Jóhanna Guðmundsd Krumminn.JPG

Upplifun að búa til sitt eigið kerti

Við héldum svo áfram að vinna í þróun á kertunum, en ég var aðallega í því til að byrja með þar sem að ég hafði greiðari aðgang að hráefnum en hún og einhvern tímann segi ég við hana að ég þyrfti að senda henni kassa með kertadóti svo hún gæti farið að föndra kerti sjálf og þar með vaknaði hugmyndin af DIY eða ´´do it yourself ´´ kassanum. Ég var svo hugfangin af kertagerð að við ákváðum að fyrsta varan okkar yrði kertaföndurkassi svo að fleiri fengju tækifæri á að kynnast þessari skemmtilegu upplifun að búa til sitt eigið ilmkerti. Jóhanna hugar vel að því að vera með lífræn og umhverfisvæn hráefni í kertagerðina. „Öll kerti eru ekki eins og þar skipta hráefnin í þeim gríðarlegu máli, en oft eru hráefni sem notuð eru til kertagerðar stútfull af allskyns aukaefnum sem eru ekki æskileg til brennslu inn á heimilum. Hráefnin í kassanum okkar og kertunum eru eins heilnæm og hægt er að nota í kertagerð og við tryggjum að að allt hráefni sé í samræmi við strangasta eftirlit. Þau innihalda ekki skaðleg efni, eru þalat- og parabenlaus, vottuð og ekki prófuð á dýrum.“ Þær nota endurnýjanlegt 100% soja vax sem fengið er frá sjálfbærum bændum í Bandaríkjunum, en það gefur hreinan og hægan bruna og svo notum við kveiki sem eru annaðhvort náttúrulegur trékveikur vottaður frá FTC (Forest Stewardship Council) eða bómullakjarnakveikur sem inniheldur ekki sink, blý eða aðra skaðlega málma. Ilmolíurnar og ilmkjarnaolíurnar eru hreinar olíur og eru vottaðar af RIFM (Reashearch Institute for Fragrance Material) og IFRA (International Fragrance Association).

Allir ættu að geta gert sín kerti

Er ekki flókið að vera kertagerð? „Kertagerð er alveg flókin þegar maður er að byrja og snýst þetta mikið um að prófa sig áfram. Það skiptir miklu máli að átta sig á hvaða magn af ilmolíu hentar hvaða vaxi best og svo skiptir prósentuhlutfall af ilmoliu og stærðin á krukkunni miklu máli þegar kveikur er valinn. En okkur hefur tekist að prófa okkur vel áfram og þróa kassann þannig að allir geti föndrað sín eigin kerti á mjög einfaldan hátt. Í kasssanum fylgja mjög skýrar leiðbeiningar sem auðvelt er að fylgja. Engar mælingar né pælingar, bara hita vaxið, blanda ilminum við vaxið, hræra aðeins og hella í kertadósirnar. Samsetningin tekur tvær mínútur eftir að vaxið hefur bráðnað. Í dag er þetta orðið svolítið þannig að þegar ég er að gera mig klára fyrir svefninn dettur mér stundum í hug að henda í tvö kerti áður en ég fer að sofa . Það er yndisleg upplifun að vakna á morgnana og kíkja á ný gerð kertin og ekki spillir fyrir dásamlegi ilmurinn.“

Jóhanna Guðmundsdóttir & Sigrún Ýr Hjörleifsdóttir  (#5.jpg

Föndurkassa má nálgast á nokkrum stöðum

Hvar er hægt að nálgast föndurkassana og kertin frá ykkur? „Við bjóðum upp á ilmkertakassann í tveimur ilmum ásamt takmörkuðu upplagi af kertum á vefsíðunni okkar www.bykrummi.is. Fura er góður vetrailmur sem inniheldur meðal annars ilmnótur af tröllatré, greni og sedrusvið og svo er það Mosi sem inniheldur ilmnótur af salvíu, lofnarblómi og eikarmosa. Mosi er hlýr og þægilegur ilmur sem flestum líkar vel. Við komum svo til með að bæta við ilmum á komandi mánuðum.“

Jóhanna Guðmundsdóttir fö#4.jpg

Viðtökurnar fram úr öllum væntingum

Jóhanna segir viðtökurnar hafa verið hreint frábærar og farið fram úr öllum væntingum. „Fólk er almennt mjög spennt fyrir þessari nýjung á markaðnum og er gaman að segja frá því að karlmenn kaupa nánast jafnmikið af kassanum og konur og eru þeir á öllum aldri. Sumir kaupa kassann sem gjöf en aðrir eru spenntir fyrir því að föndra bara sín eigin kerti en þetta er markmiðið með kassanum, að kynna kertagerð fyrir öllum.“ Loks langar Jóhönnu að koma því á framfæri að 1.000,- krónur af hverjum seldum kassa mun renna til góðgerðarmála dagana 15. – 31. desember. Þær munum upplýsa um viðtakanda á heimasíðunni sinni. Það er hægt að fá kassana og kertin send heim gegn gjaldi eða sækja í Miðhraun 2, Garðabæ. Hægt að kaupa ilmkertakassann í Garðheimum og í Blómaskúr Villu í Reykjanesbæ. Fleiri útsölustaðir eru svo væntanlegir á nýju ári ásamt meira úrvali af ilmkertum í mörgum spennandi ilmum.