Atvinnudansarinn Hanna Rún Bazev Óladóttir hefur lengi verið í fremstu röð meðal keppenda í samkvæmisdönsum þar sem þessi magnaða íþróttakona hefur dansað sig inn í hjörtu dómnefnda og sópað til sín verðlaunum.

Síðast mætti hún til leiks um helgina, ásamt eiginmanni sínum og dansfélaga Nikita Bazev, á Evrópumót á Ítalíu þar sem þau höfnuðu í fjórða sæti.

Hæfileikar Hönnu Rúnar njóta sín einnig utan dansgólfsins þar sem hún hefur hannað og skreytt keppniskjólana sína síðastliðin sautján ár. Kjólana skreytir hún ýmist með blúndum, Swarovski-kristöllum eða glersteinum en þannig skreyttir „ballroom“ kjólar geta kostað allt upp í eina og hálfa milljón króna.

„Ég kenndi sjálfri mér að sauma og steina kjólana og það hefur sparað mér rosalegan pening. Mig langar að hafa kjólana mína mjög flotta og mikið steinda og það getur kostað mig um 700 þúsund fyrir einn kjól,“ upplýsir Hanna Rún.

300 klukkustundir í brúðarkjól

Hanna Rún segir áhugann á handverkinu hafa kviknað með dansinum en hún var aðeins fimmtán ára gömul þegar hún steinaði sinn fyrsta heila kjól.

„Ég hef steinað alla danskjólana mína síðan þá og er orðin ansi snögg að þessu í dag. Þetta er eitthvað sem ég geri nánast daglega, ef þetta eru ekki kjólar þá eru það leikföng barnanna minna,“ segir hún og bætir við að líklega sé þetta, eins og prjónaskapur fyrir mörgum, ákveðin hugleiðsla.

Aðspurð segir hún að nákvæmnisvinnan við blúndusauminn og að líma allan þennan fjölda steina á kjóla geti verið afar tímafrekt. Eitt sinn hafi hún til að mynda eytt um 300 klukkustundum í að skreyta brúðarkjól fyrir vinkonu sína.

Nokkrir af þeim hlutum sem Hanna Rún hefur skreytt.
Mynd/Samsett

Kreistir kristala úr tánum

„Ég geymi um tuttugu vel valda kjóla sem ég hef gert. Áður seldi ég alltaf kjóla og lét þá ganga upp í nýja en eftir að ég eignaðist dóttur mína vil ég geyma þá og leyfa henni að leika sér með þá seinna.“

Hanna Rún segist ekki vilja fara í sama kjólinn tvisvar þar sem fólk fylgist með í hverju hún mætir hverju sinni. „Margir nota sama kjólinn allt árið og sumir eru með styrktaraðila,“ segir Hanna Rún og bætir við að henni hafi boðist slíkir samningar. „En ég vil geta ráðið í hverju ég dansa.“

Hanna Rún segir aðspurð að kjólarnir geti verið mjög þungir en þyngd steinanna dreifist þó um líkamann. „Kjóllinn sem ég keppti í á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í fyrra var eiginlega aðeins of þungur þar sem hann kippti smá í ef ég var að taka hraðan snúning.“

Hanna segir fjölda steina óhjákvæmilega falla á dansgólfið í keppnum. „Ég hef nokkrum sinnum þurft að kreista kristalla úr tánum sem er ekkert mjög þægilegt.“

Hanna Rún hannar og skreytir alla keppniskjólana sína.
Fréttablaðið/Anton Brink

Dansandi áhrifavaldur

„Ég byrjaði einnig að handsteina skóna mína fyrir slysni en ég hafði lagt línið yfir hælinn á dansskónum þegar ég var að sauma kjólinn og þá urðu þeir blettóttir og ljótir.

Það var ekkert hægt að laga það og þetta voru einu skórnir sem ég var með þannig að ég ákvað að steina þá með ólívugrænum steinum í stíl við kjólinn,“ segir Hanna Rún sem síðan tók eftir því í næstu keppnum að aðrar stelpur fóru líka að steina skóna sína en áður hafði lítið verið um slíkt.

Ökklaband er annar fylgihlutur sem hún tók eftir að keppendur fóru að taka upp eftir henni. Eitthvað sem henni þótti nú ekkert sérstakt en hafði notað til að fela lítið húðflúr. „Ég vil vera alveg „clean“ þegar ég er að dansa svo ég gerði hlébarða-ökklaband í stíl við kjólinn minn.“

Þá sé töluverður fjöldi húðflúra á höndum Nikita sýnilegur þegar hann keppir, sem henni þykir hið besta mál.

Skreytir kjóla og leikföng

„Ég steina eitthvað nánast daglega. Ef ég er ekki að steina kjól, þá eru það leikföng eða föt barnanna. Svo eru börnin mín einnig orðin mjög dugleg við þetta sem er bara gott fyrir fínhreyfingarnar,“ segir Hanna Rún sem er mikil fjölskyldukona og nýtur þess að föndra með börnum sínum tveimur.

Hún segir vini sonarins einnig hafa óskað eftir steindu sverði frá mömmunni svo eitthvað sé nefnt og fer ekki leynt með ánægjuna með viðbrögðin við þessari sameiningu áhugamála hennar og hugleiðslu.

Hanna hefur verið einn fremsti dansari landsins um árabil
fréttablaðið/andri marinó