Lengi skal manninn reyna er yfir­lits­sýning á verkum eftir Þor­vald Þor­steins­son sem nú stendur yfir í Lista­safninu á Akur­eyri. Sýningin er sam­starfs­verk­efni lista­safnsins og Hafnar­borgar í Hafnar­firði en þar verður hún einnig sett upp snemma árs 2021.

Þor­valdur var af­kasta­mikill lista­maður og kennari sem nýtti sér f lesta miðla í list­sköpun. Auk þess að fást við mynd­list samdi hann skáld­sögur, leik­rit, mynd­verk og tón­list. Hann hélt margar einka­sýningar, jafnt á Ís­landi sem er­lendis, og tók þátt í al­þjóð­legum sam­sýningum víða um heim.

Þor­valdur lést árið 2013, 52 ára gamall. Ekkja hans, Helena Jóns­dóttir, dans­höfundur og kvik­mynda­gerðar­kona, stýrir eigna­búi Þor­valdar og kom með tugi nýrra verka sem eru sýnd meðal þeirra eldri á yfir­lits­sýningunni á Akur­eyri.

Var fjöl­lista­maður

„Þor­valdur var ekki kenndur við eina tegund mynd­listar. Hann snerti á öllum flötum hennar. Það er hægt að segja að hann sé fjöl lista­maður,“ segir Helena. „Leik­verk, tón­list og bækur hans munu birtast í við­eig­andi húsum meðan sýningin í lista­safninu stendur yfir. Gott dæmi um verk hans á milli mynd­listar og hvers­dags­at­hafna eru Maríu­myndir þar sem myndir af Akur­eyrar-Maríum eru settar upp sem altaris­tafla. Þarna er líka verk sem heitir Verka­skipti en þar er spurt: Hvað myndirðu grípa með þér ef það kviknaði í húsinu þínu? Ein­hverjir myndu grípa mynda­albúm en aðrir hlutir, sem ein­hverjir furða sig á að hafi orðið fyrir valinu, verða að ein­stöku verð­mæti þegar við fáum að kynnast sögunni á bak við þann hlut.“

Mann­úð­leg skóla­stefna

Þor­valdur var ötull tals­maður frjáls­lyndrar og mann­úð­legrar skóla­stefnu. „Mig langaði að gera hana að­gengi­lega fyrir þá sem hafa á­huga á skóla­málum. Og á Amts­bóka­safninu er hægt að hlusta á upp­lestur af „Mennta­skólinn, leik- og grunn­skóli, svarar kalli tímans: Hann hlúir að því sem upp­götvast hefur og nú fremur en því sem áætlað er þar og þá.“

Þessi stefna á ekki bara við skóla­hald, heldur gagnast þetta okkur öllum í okkar dag­lega amstri,“ segir Helena og bætir við: „Eins og Þor­valdur sagði svo fal­lega: Þetta er ekki spurning um að hlaða í þig upp­lýsingum heldur styrkja hæfi leika þína, kalla þig fram eða fram­kalla þig.“

Þor­valdur og Helena unnu mikið saman. „Við vorum mikið saman. Við unnum og bjuggum í sama rými og ef við vorum ekki saman þá var oft hringt. Á­vallt þegar Þor­valdur var með hug­mynd eða eitt­hvað sem brann á hans hjarta, vildi hann deila því sem fyrst. At­burðir höfðu ekki gerst fyrr en við vorum búin að deila þeim með hvort öðru.“

Blaða­maður spyr Helenu hvort henni finnist að Þor­valdur sé alltaf með henni. „Já, og hann lætur reglu­lega vita af sér með ó­líkum hætti. Hann sagði alltaf: Er ást. Sú setning var alltaf með okkur,“ segir Helena og bætir við: „Á mánu­degi eftir opnuna í lista­safninu fór ég í vín­búðina. Mig langaði til að þakka þeim á skrif­stofu lista­safnsins fyrir með vín­flösku. Ég leit yfir hillurnar og sá rauð­víns­flösku frá Spáni og á henni stóð: Ást er.“

Sorgin eins og rússí­bani

Á Skjald­borgar­há­tíðinni var frum­sýnd heimildar­mynd eftir Kristínu Andreu Þórðar­dóttur um fyrstu skrefin í sorgar­ferli Helenu og stendur til að hafa fleiri sýningar í vetur. Myndin heitir Er ást. „Kristín hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að taka þátt í heimildar­mynd um okkur Þor­vald og sorgina. Fyrstu við­brögð mín voru nei. Þegar ég fór sjálf að leita að efni til að hjálpa mér í mínu ferli þá fann ég mjög fljót­lega að það er lítið til af góðu að­gengi­legu efni um sorgina. Og eftir á­kveðna um­hugsun á­kvað ég deila minni sögu í von um að það geti verið til fræðslu og stuðnings í sorginni. Öll þurfum við að stíga þessi sorgar­skref ein­hvern tímann á okkar lífs­tíð.

Kristín fylgdi mér í fimm ár. Það var ekki auð­velt því sorgar­ferlið er ekki línu­legt heldur upp­lifi ég það eins og rússí­bana. Ég heyrði aðra ekkju lýsa þessu eins og því að synda í öldu­ríkum sjó, stundum kemst maður upp úr til að ná andanum.“

Í vinnslu er bók eftir Þor­vald sem hann var að ljúka við rétt fyrir and­lát sitt. Ber hún heitið Fæstir eru eins og fólk er f lest, hug­leiðingar um mennsku í á­lögum. Bók sem fjallar um mennskar verur í á­lögum af fúsum og frjálsum vilja. „Þor­valdur hafði svo margt að segja, þeir sem komu á fund hans urðu ríkari fyrir vikið. Mig langar til að deila þeim fundi með f leirum,“ segir Helena.

Þorvaldur Þorsteinsson hefði orðið sextugur í ár.
Mynd/Anton Brink