Nú styttist óðum í að eitt frumlegasta og ljúffengasta jóladagatalið í ár komi í sölu. Hér er á ferðinni Íslenska matarhandverksdagatalið sem nú verður fáanlegt í tveimur útgáfum. Heiðurinn af því eru þær stöllur Hlédís Sveinsdóttir og Dóra en Dóra er oft kennd við veitingastaðinn Á næstu grösum og slow food-hreyfinguna á Íslandi en Hlédís er fyrrverandi formaður Beint frá býli og annar stofnandi Matarmarkaðarins í Hörpu.

„Jóladagatöl fyrir fullorðna eru að ryðja sér til rúms hér á landi og njóta æ meiri vinsælda. Við stöllur viljum meina að þetta sé hið fullkomna dagatal fyrir hina fullorðnu. Það styður við íslenska smáframleiðendur og það er ætt. Við erum líka með tvenns slags dagatöl núna. Jóladagatal með 24 gjöfum og aðventudagatal með fjórum gjöfum,“ segir Hlédís en viðtökurnar við dagatalinu í fyrra voru framar björtustu vonum.

Dagatalið inniheldur allt helsta sælkerameti sem íslenskir frumkvöðlar og smáframleiðendur hafa upp á að bjóða en eftir miklar vinsældir dagatalsins í fyrra var ákveðið að endurtaka leikinn og gleðja landsmenn með sælkeravörum í aðventunni.

„Allar vörur í dagatölunum eru unnar af ástríðu af fólki og smáframleiðendum sem brennur fyrir sinni vöru. Þetta er saga á bak við hverja einustu vöru, eiginlega lítið ævintýri. Það má eiginlega segja að þetta sé dagatal með ætum ævintýrum. Við erum líka sérstaklega kátar með að geta boðið upp á aðventudagatalið með fjórum gjöfum til að mynda hentar það líka svo vel sem starfsmannagjafir og jafnvel vinagjafir.“