MÓSA (meticillín-ónæmir Staphylococcus aureus), VRE (vankómýcín-ónæmir enterókokkar) og BBL (breiðvirkir betalaktamasa-myndandi) bakteríustofnar hafa þróað með sér ónæmi gegn ýmsum sýklalyfjum. Þó að oft sé talað um þessa stofna samtímis eru þeir mjög ólíkir, valda mismunandi sýkingum og mismunandi varúðarráðstafanir gerðar þegar þeir greinast hjá sjúklingum eða öðrum.

Þessar bakteríur eru oftast ekki hættulegar heilbrigðum einstaklingum. Hins vegar er óæskilegt að þær nái útbreiðslu á sjúkrahúsum, þar sem þær geta valdið sýkingum í ákveðnum sjúklingahópum. Hér á landi hafa þessir stofnar náð mismikilli fótfestu en almennt eru þeir miklu sjaldgæfari en annars staðar í heiminum. Það má segja að Ísland og heilbrigðiskerfið hér sé í ákveðinni sérstöðu hvað það varðar.

Sjúklingar eru hvattir til að spyrja heilbrigðisstarfsfólk hvort það hafi hreinsað hendurnar með handspritti. FRÉTTABLAÐIÐ/Ernir

En hvers vegna hefur heilbrigðisstarfsfólk áhyggjur af dreifingu þessara bakteríutegunda? Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir segir það vera mikilvægt að bera ekki ónæmar bakteríur og bakteríur almennt til sjúklinga á sjúkrahúsum sem geta til dæmis verið á ónæmisbælandi meðferð vegna ígræðslna, lyfjameðferðar, með æðaleggi eða opin sár. Þá séu líkur á að sjúklingar fái sýkingar sem geta verið miserfiðar í meðhöndlun. Í heiminum er útbreiðsla BBL-bakteríutegunda langstærsta ógnin af ónæmum bakteríutegundum vegna þess að þær geta verið alónæmar og þá virka fæst sýklalyf á þau. Hér á eftir er greint nánar frá þremur stofnum ónæmra bakteríutegunda.

Ónæmar ristilbakteríur

Þarmaflóra manna inniheldur milljónir baktería, þar á meðal gram-neikvæðar bakteríur. Til dæmis eru E. coli gram-neikvæðar bakteríur. Fæstar E. coli-bakteríutegundir valda skaða en sumar geta valdið alvarlegri matareitrun.

Útbreiðsla BBL-bakteríutegunda er langstærsta ógnin af ónæmum bakteríutegundum. NORDICPHOTOS/GETTY

BBL eru oftast ristilbakteríur sem hafa fengið ónæmisgen þannig að ýmis sýklalyf verka ekki á þær. BBL valda þvagfærasýkingum, spítalalungnabólgum, blóðsýkingum og kviðarholssýkingum. Útbreiðsla BBL hefur verið mikil í löndum Suður-Evrópu og víða annars staðar í heiminum, sérstaklega í Indlandi og annars staðar í Asíu. Sumar af þessum bakteríum eru al-ónæmar, sem þýðir að fæst sýklalyf virka á þær. Útbreiðslan er talin tengjast einna helst ofnotkun breiðvirkra sýklalyfja í heiminum. Því þurfi að nota sýklalyf á ábyrgari og viðurkenndan hátt, nota sem þröngvirkust lyf og í sem skemmstan tíma. Hér á Íslandi hefur sýklun BBL-baktería aukist á síðustu árum.

MÓSA valda minniháttar húðsýkingum

S. aureus er algeng baktería á húð. Hún situr oft í nösum, handarkrikum og undir fellingum án þess að valda skaða. Þessi baktería getur valdið alvarlegum sýkingum í húð og blóði, ef hún kemst inn í líkamann og dreifist þannig í bein, liði og hjartalokur. Meticillín er pensilínlyf sem virkar á S. aureus en var tekið af markaði fyrir um þrjátíu árum vegna aukaverkana.

Önnur lyf eru notuð í staðinn en bakterían hefur myndað ónæmi gegn meticillíni og skyldum lyfjum. Útbreiðsla hennar nær um allan heiminn. Sú afleiða er þekkt sem MÓSA. Algengustu sýkingarnar geta ekki talist alvarlegar en það eru endurteknar minniháttar húðsýkingar. Stundum er reynt að uppræta MÓSA-sýklun, til dæmis hjá heilbrigðisstarfsfólki sem ber bakteríuna á húð, en það hefur gefist misvel.

VRE-sýklun oftast hjá ónæmisbældum

VRE er enterókokkar sem eru ónæmir fyrir sýklalyfinu vankómýcín. Enterókokkar eru hluti af eðlilegri ristilflóru í mönnum, algengustu sýkingarnar af völdum þeirra eru oftast þvagfærasýkingar. Enterókokkar geta þó líka valdið ífarandi nýrna- og blóðsýkingum sem geta svo valdið sýkingum á hjartalokum og í kviðarholi í kjölfar ýmissa aðgerða.

Stundum er reynt að uppræta MÓSA sýklun en það hefur gengið misvel. NORDICPHOTOS/GETTY

Sýklalyfið vankómýcín er notað ef önnur sýklalyf virka ekki, en sumir enterókokkar hafa fengið ákveðna genabreytingu sem gerir það að verkum að vankómýcín virkar ekki heldur. VRE-sýklun finnst aðallega hjá einstaklingum sem hafa verið lengi á sjúkrahúsi á sýklalyfjum, eru ónæmisbældir og hafa ef til vill farið í margar eða flóknar aðgerðir. Til eru önnur sýklalyf sem verka á VRE. Sýkingar af völdum VRE eru oftast einkenni langvinnra veikinda. Bæði sýklun og sýkingar eru fátíðar hér á landi.

Átak í handhreinsun á Landspítalanum

Bryndís segir að ónæmar bakteríur séu almennt séð tiltölulega sjaldgæfar hér á Íslandi miðað við annars staðar í heiminum. Ferðamenn geta borið þessar bakteríur með sér, eins geta Íslendingar „sýklast“ á ferðalögum erlendis og borið ónæmar bakteríur í ristilflóru í marga mánuði eftir dvöl erlendis. Þegar sjúklingar eru fluttir frá sjúkrahúsum erlendis á til dæmis Landspítalann er alltaf skimað fyrir tilvist þessara bakteríutegunda. Ef þær finnast er viðkomandi sjúklingur hafður í einangrun á spítalanum til að koma í veg fyrir víðari útbreiðslu. Hins vegar er ekki almennt talin ástæða fyrir fólk að haga sér eitthvað öðruvísi utan spítalans.

Mikilvægasta vörn heilbrigðisstarfsfólks er notkun handspritts reglulega og á milli allra samskipta við sjúklinga. „Þetta er mikilvægasta, einfaldasta og áhrifamesta leiðin til að koma í veg fyrir dreifingu sýkinga innan heilbrigðiskerfisins. Þá erum við að tala um dreifingu baktería milli sjúklinga í gegnum heilbrigðisstarfsfólk.“

Á Landspítalanum er átak í gangi þar sem sjúklingar eru hvattir til að spyrja heilbrigðisstarfsmenn sem annast þá hvort þeir hafi hreinsað hendurnar. „Aðalatriðið er að handhreinsun er ódýr, einföld og áhrifarík leið til að koma í veg fyrir að heilbrigðisstarfsfólk dreifi sýkingum,“ segir Bryndís.