Akiva Golds­man,einn hand­rits­höfunda myndarinnar I Am Legend, fór á Twitter til að leið­rétta orð­róma þess efnis að bólu­setning gegn Co­vid-19 gæti breytt fólki í upp­vakninga á borð við þá sem Will Smith barðist gegn í myndinni.

Í síðustu viku greindi The New York Times frá því að eig­andi gler­augna­búðar í Bronx hverfi New York borgar ætti í stökustu vand­ræðum með að sann­færa suma starfs­menn sína til að láta bólu­setja sig.

„Einn starfs­maður tjáði honum að hún hefði á­hyggjur vegna þess að hún hélt að bólu­efni hefði verið or­sök þess að per­sónur myndarinnar I Am Legend breyttust í upp­vakninga,“ segir í frétt New York Times.

I Am Legend, sem kom út árið 2007 og er byggð á sam­nefndri skáld­sögu frá 1954, fjallar um mis­heppnaða erfða­fræði­rann­sókn á mis­lingum sem veldur far­sótt sem drepur 99 prósent af mann­kyninu. Þeir sem lifa af smitið breytast hins vegar í blóð­þyrsta upp­vakninga.

Til­hæfu­lausar stað­hæfingar þess efnis að sam­bæri­leg ör­lög gætu biðið þeirra sem láta bólu­setja sig með Co­vid-19 bólu­efni hefur verið dreift víða um sam­fé­lags­miðla og sá Akiva Golds­man, einn hand­rits­höfunda I Am Legend, sig knúinn til að bregðast við fals­fréttunum.

„Guð. Minn. Góður. Þetta er kvik­mynd. Ég skáldaði þetta upp. Þetta. Er. Ekki. Raun­veru­legt,“ skrifaði hann á Twitter og deildi með skjá­skoti af frétt New York Times.

Fjöl­mörgum færslum sem nota myndina til að dreifa fölskum upp­lýsingum og mis­vísandi á­róðri gegn bólu­setningum hefur verið dreift á sam­fé­lags­miðlum svo mánuðum skiptir.

Eitt slíkt „meme“ sem dreift var á netinu sýnir aðal­per­sónu I Am Legend, sem leikin var af Will Smith, á­samt einum upp­vakninganna með textanum:

„Mundu, að í I Am Legend þá var það ekki sjúk­dómurinn sem breytti fólki í upp­vakninga. Bólu­efnið gerði það.“

Í sögu­þræði myndarinnar er það hins vegar hinn erfða­breytti mis­linga­vírus sem breytir fólki í upp­vakninga. Önnur sam­bæri­leg færsla stað­hæfði að sögu­svið myndarinnar væri árið 2021 þegar hún gerist í raun árið 2012.

Það er því ljóst að sam­særis­kenninga­smiðir þurfa að seilast ansi langt til þess að gefa fals­fréttum sínum vigt, þeir þurfa ekki bara að leita á slóðir skáld­skaparins heldur neyðast þeir einnig til þess að endur­skrifa téðan skáld­skap sér í hag.