Pétur Oddbergur Heimisson og Bíó Paradís standa fyrir prjónabíói næstkomandi sunnudag kl 20:00. Hornsteinn íslenskra gamanmynda, Stella í orlofi, verður sýnd og geta kvikmyndagestir tekið með sér það sem þeir hafa á prjónunum í salinn.

Hugmyndin spratt upp hjá Rósu Þorleifsdóttur í Facebook-hópnum Handóðir prjónarar sem telur um 28 þúsund meðlimi en svokölluð prjónabíó hafa meðal annars notið vinsælda í Danmörku og sýndu meðlimir hópsins mikinn áhuga á að prjóna í bíó hérlendis.

„Stella í orlofi er mynd sem allir þekkja, þegar þú ert að prjóna ertu kannski ekkert endilega allan tímann að horfa, en það er svo gaman að hlusta líka. Sumir geta prjónað án þess að horfa, ég er svona að reyna að læra það. Það verður smá lýsing í salnum svo það verður hægt að sjá það sem maður er að gera og ég mæli með því að mæta ekki með mjög dökkt garn.“ Heklarar eru líka velkomnir og jafnframt þeir sem prjóna ekki. „Þegar maður mætir með garn og er að prjóna í bíó þá er horft á mann en þegar allir prjóna sýnst þetta við. En auðvitað eru allir velkomnir!“

Pétur Oddbergur hefur verið ötull í skipulagningu ýmissa prjónasamkunda undanfarið og stendur fyrir reglulegum prjónakvöldum bæði á Kex hostel og í Tjarnarbíói. „Ég vil vekja athygli á handprjóni og líka hvetja karlmenn til að prjóna. Mér finnst það hafa tekist. Það er alltaf eitthvað af karlmönnum að mæta á prjónakvöld.“ Í myndbandi sem Bíó Paradís deildi sést að Salomon Gustavsson hitti Pétur á dögunum og var hann fljótur að tileinka sér það sem Pétur kenndi honum. „Hann á greinilega mjög lítinn kött en hann er að prjóna húfu á hann.“

Aðspurður segist Pétur sjálfur vera að prjóna peysu núna en hann mun koma fram í heimildarmynd frá evrópska kvikmyndaframleiðandanum Arte sem er í bígerð um íslensku lopapeysuna og er ferlinu frá ull til lopapeysu fylgt eftir. Frumsýning hennar er áformuð í október á þessu ári.

Talsvert hefur selst af miðum á prjónabíóið þann 26. maí og takmarkaður miðafjöldi er í boði svo gott er að tryggja sér miða sem fyrst á tix.is eða í Bíó Paradís. Gestum er velkomið að mæta fyrr og munda prjónana og hitta aðra handóða prjónara. Gleðistund verður frá 17:00 – 19:00.