Andri hefur tekið þátt og hlotið gott gengi í fjölda keppna og gaf út kokteilabók fyrir síðustu jól sem nefnist Heimabarinn. „Þetta er eins konar heimabarþjónabiblía með ýmsum kokteilauppskriftum, uppskriftum að sýrópi, fróðleik um ýmis sterk vín og fleira til þess að gera bragðgóða kokteila með góðu jafnvægi. Þess má geta að bókin seldist upp og fer í endurprentun núna fyrir þessi jól,“ segir Andri. Áhugasömum er bent á að fylgja Andra á instagram, @theviceman.

Leitar í náttúruna

Barþjónastíll Andra er frábrugðinn því sem gengur og gerist. „Ég fylgi ekki trendum í kokteilgerðinni heldur fer mínar eigin leiðir og leita í íslenska náttúru og framleiðslu. Mér þykir spennandi að taka íslenskar hefðir og setja í nýjan búning í drykkjarformi og er einn af þeim sem fer út í náttúruna á sumrin til að tína jurtir. Hér má finna ýmislegt sem gaman er að leika sér með eins og blóðberg, kerfil, ilmreyr og fleira. Ég er orðinn það vel að mér í þessu að kollegar mínir leita til mín ef þeir eru með spurningar um notkun íslenskra jurta. Ég er líka mikið náttúrubarn og sveitamaður inn við beinið. Það er því ákveðinn flótti frá erilsömum bransa fyrir mig að komast út í náttúruna. Það veitir mér ró og nærir sköpunargleðina í mér.

Andri notar íslenskt gin í Alexander hanastélið og raspar kanil yfir. Útkoman er guðdómlegur eftirréttur í glasi.

Mér finnst líka fásinna að sækja vatnið yfir lækinn. Mitt mottó er að ef það sem er við hliðina á þér er nógu gott, þá þarf ekki að leita lengra. Ég er mjög hrifinn af því sem íslenskir sterkvínsframleiðendur, sem eru meðlimir í Samtökum íslenskra eimingahúsa, eru að gera. Það sem skilgreinir íslenska framleiðslu í þessum geira er raunverulega að finna innan þeirra veggja. Margir hverjir, eins og Birgir hjá Þoran Distillery og Snorri hjá Reykjavík Distillery, nota íslenskar jurtir og hráefni í sína framleiðslu sem passar mjög vel við það sem ég er að gera. Bláberjalíkjörinn frá Rvk Distillery er til dæmis mjög jólalegur og Marberg gin frá Þoran er mjög skemmtileg tilbreyting frá erlenda gininu.“

Hvað finnst þér vanta á íslenskan áfengismarkað?

„Ég vil meira brennivín. Brennivínið er okkar hefðbundna sterkvín sem við megum alveg vera stoltari af og það má leika sér meira með það. Frakkarnir eru með koníakið sitt og Mexíkóar eiga tekíla, en einhvern veginn gerum við alltaf lítið úr íslenska brennivíninu, sem mér finnst miður.“

Íslenska ginið sómir sér vel með þessu nýstárlega og spennandi jólaglöggi. Að sögn Andra eru framleiðendur, í Samtökum íslenskra eimingahúsa, að búa til einstaklega gott sterkvín.

Þarf alltaf að vera vín?

„Bragðsamsetning skiptir mig mestu máli í kokteilgerðinni. Það skiptir minna máli hvort drykkurinn sé áfengur eða óáfengur. Aðalatriðið er að para saman brögð sem eru áhugaverð og að drykkurinn sé í jafnvægi.“

Andri segist ekki eiga sérstakan uppáhaldsjólakokteil en hann býður oft upp á kokteila yfir hátíðirnar og önnur tilefni. „Ég er meiri kokteilgerðarmaður en kokteildrykkjumaður. Þetta er skapandi handverk fyrir mér og ég hef gaman af því að sjá viðbrögð fólks þegar það smakkar eitthvað sem það hefur ekki fengið áður.

Oft vefst kokteilgerð fyrir fólki en hún þarf ekki að vera flókin. Ef fólk horfir í einfaldleikann og vinnur með brögð sem því þykir góð og jólaleg, þá færðu í raun besta jólakokteilinn fyrir þig.“

Tveir jólalegir

Andri hefur sett saman tvær girnilegar uppskriftir af hátíðlegum kokteilum sem gaman er að gæða sér á um jólin, í aðdraganda þeirra, eða bara hvenær sem er.

María Prinsessa er jólalegur og gómsætur drykkur sem smellpassar með jólaísnum.

María prinsessa

Þessi kokteill er byggður á uppskrift frá 1917. „Þetta er tilbrigði við Alexander, einn vinsælasta eftirréttakokteil allra tíma, og inniheldur Marberg gin og súkkulaðilíkjör en enga eggjahvítu eins og originalinn.

Innihaldsefni

30 ml Marberg Barrel Aged Gin

30 ml Tobago Gold Chocolate Rum Cream (fæst í Vínbúð)

30 ml rjómi Allt hrist vel með klaka.

Klakinn er svo sigtaður frá og drykkurinn hristur aftur án klaka og borinn fram í coupe glasi með röspuðum kanil yfir.

Jólaglöggið hlýjar köldum fingrum og mýkir barkann eftir útiveruna í vetur.

Marberg jólaglögg

Hinn kokteillinn er meira eins og glögg og er borinn fram heitur. Í hann nota ég sitt hvort ginið frá Þoran distillery, svart te, engifersýróp og sítrónusafa. Þennan er hægt að skala upp og búa til heilan pott. Svo má bara halda þessu heitu allt kvöldið í potti.

Innihaldsefni

40 ml Marberg Dry gin

100 ml sterkt, svart te 20 ml engifer sýróp*

safi úr hálfu lime kanilstangir eftir smekk

Engifer sýróp

Látið vatn og sykur í jöfnum hlutföllum, ásamt stórum bita af engifer, sjóða á lágum hita í 30 mínútur. Sigtið engifer frá og setjið sýrópið í flösku.