„Ég er sjúkraliðanemi, prjónakona og hamstraeigandi/mamma,“ segir Hanna glöð í bragði þegar hún er beðin um að lýsa sér.

Helstu áhugamál Hönnu eru útivera, prjónaskapur, eldamennska, innanhússhönnun, ljósmyndun og síðast en ekki síst ferðalög.

Í Breiðholtinu er víða að finna heillandi og fallegar eldhúsinnréttingar sem eru íslensk hönnun og sérsmíð úr tekki, frá því hverfið byggðist upp. Eldhús Hönnu hefur verið óbreytt frá upphafi, eða árinu 1973. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Fallegasta eldhús landsins

Hanna þykir einstaklega lagin við að raða hlutum saman, eins og sjá má á heimili hennar en hún býr í stórri blokk í Breiðholtinu og flutti þangað í janúar árið 2018. Íbúð Hönnu er hlýleg, sjarmerandi og stílhrein.

Hvað var það sem heillaði þig við þessa íbúð?

„Það sem heillaði mig mest við þessa íbúð er eldhúsið, að mínu mati fallegasta eldhús landsins. Það er ekki oft sem maður sér upprunaleg eldhús svona vel farin. Tekkhurðir á skápum og svo auðvitað „walk in closet“. Mér finnst staðsetningin líka frábær því það er stutt út í móa, Heiðmörk, Elliðaárdal og Breiðholtslaug, sem er mjög næs laug.“

Hafið þið séð eitthvað krúttlegra en þennan örsmáa hamstur sem bíður þess spenntur að gæða sér á fersku hindberi? MYND/HANNA ÞÓRA

Þriggja hamstra móðir

Á heimilinu búa ásamt Hönnu hamstrarnir Mói, Lóa og Miso.

Ljóst er að Hönnu þykir ákaflega vænt um þá og hún leggur sig fram við að sinna þeim af alúð og umhyggju.

„Mér finnst mjög skemmtilegt að eiga þessi dýr, og það er bara eitthvað svo gott að vita að þeir hafi það gott. Það er auðvelt fyrir fólk að fara óvart illa með þessi dýr, með því að vera með þau í of litlu búri, ekki með rétt fæði, eða rétta stærð af hjóli og svo framvegis.“

Hanna gætir þess að gefa hömstrunum fjölbreytt fæði. „Þeir borða náttúrlega hamstrafóður en svo þarf helst að bæta við próteini í fæðuna hjá þeim og þá hef ég verið að gefa þeim þurrkaða orma, svo elska þeir fersk ber og grænmeti, brokkolí og bláber eru í uppáhaldi.“

Hver stenst þetta krútt sem hvílir í lófa Hönnu Þóru og rígheldur í brakandi ferskt brokkólí undir tönn? MYND/HANNA ÞÓRA
Hanna segir hamstra einstaklega skemmtileg dýr. MYND/HANNA ÞÓRA

Hvenær komu hamstrarnir inn á heimilið?

„Ég held að þetta hafi byrjað á ofnotkun á YouTube á Covid-tímum síðasta vor þar sem hugmyndin kviknaði, ég hef aldrei átt nagdýr áður, nema þegar ég var krakki, þá átti ég nokkrar kanínur. Mér fannst þetta góður tími að fá sér dýr á meðan ég var meira heima og ekki að ferðast neitt.“

„Þeir eru náttúrlega ofboðslega sætir og mjúkir, svo kom mér á óvart hvað þeir eru miklir karakterar. Þetta eru ekki bara einhverjar mýs, þeir þurfa athygli og nánd og þeim getur leiðst auðveldlega, þannig maður þarf alveg að leika og spjalla við þá á hverjum degi.“

Það er afslappað andrúmsloft og mikið um náttúrulegan efnivið á heimili Hönnu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hver er uppáhaldsstaðurinn í íbúðinni?

„Eldhúsið mitt er uppáhaldsstaðurinn minn og að sitja við borðstofuborðið sem ég bjó til ásamt pabba mínum.“

En uppáhaldshluturinn?

„Ég fann þennan sófa, sem er hannaður af Mario Bellini, á slikk á Facebook. Hann var keyptur í Epal, sennilega á tíunda áratugnum.“

Hanna á nokkra leirmuni frá Bjarna Sigurðssyni keramíker, sem hún heldur mikið upp á. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hvernig list er á heimilinu? Hvernig velurðu inn list á heimilið?

„Ég á nokkra leirmuni frá Bjarna Sigurðssyni sem ég held mikið upp á. Annars eru mín helstu listaverk plöntur og bækur.“

Ertu að safna einhverju?

„Ég er með blæti fyrir stólum, var með 15 stykki af stólum í íbúðinni ekki fyrir svo löngu. Ég hef verið að sanka að mér notuðum mublum frá því að ég var unglingur. Lykillinn er að geta gefið eða selt frá sér þegar maður er orðinn leiður á hlutunum. Þannig að heimilið mitt er stöðugt að breytast.“

Hanna og eiginmaður hennar, Josh Enders. MYND/HANNA ÞÓRA

Fámennar götur í Tókíó

Eiginmaður Hönnu, Josh Enders, er bandarískur og hafa þau ferðast töluvert bæði innan Bandaríkjanna og utan.

„Við höfum farið til New York, Las Vegas, Arizona, London og Austin í Texas,“ segir Hanna og bætir við að það hafi verið sérstaklega skemmtilegt að heimsækja Austin.

Hanna og Josh voru stödd í Tókíó þegar Covid skall á. Hún segir að á meðan óvissuástandið hafi ríkt heima þá hafi verið frekar rólegt í Japan enda var landinu fljótlega skellt í lás. Það hafi þó verið furðulegt að sjá tómar göturnar.

„Það var mjög sérstakt að vera þar, það voru fáir túristar, sem er óvenjulegt því vanalega er þetta mjög fjölmenn borg.“

Einhverjir hafa eflaust heyrt af tilraun sem framkvæmd var í Tókíó þar sem peningaveski var skilið eftir á götunni og enginn vogaði sér að snerta það tímunum saman. Hanna staðfestir þessa niðurstöðu.

„Josh gleymdi einu sinni veskinu sínu með vegabréfi og um 50.000 krónum í lest. Við horfðum á eftir lestinni fara af stað en svo var einhver sem skilaði því.“

Hanna er afar hrifin af plöntu og notuðum húsgögnum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Nægjusemi og einfaldleiki

Hanna býr yfir mikilli reynslu af því að vinna með öldruðum en hún hefur unnið á hjúkrunarheimilum og starfar nú við heimahjúkrun.

„Ég fæ mikið út úr því að hjálpa fólki og þetta er alveg yndisleg vinna. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í sjúkraliðanámið er svo ég gæti farið að vinna í heimahjúkrun.“

Hanna segir starfið afar gefandi og dýrmætt.

„Ég fæ að sjá hvernig heimili þeirra eru, sem mér þykir ótrúlega skemmtilegt. Fólk er oft með skemmtilegar sögur, segir manni frá persónulegri lífsreynslu og gefur manni ýmis lífsráð. Eins og alltaf að taka lýsi,“ segir Hanna brosandi. „Það er líka gaman að sjá hve margt gamalt fólk hugsar vel um sig og margir fara á hverjum einasta degi út að ganga.“

Hanna Þóra starfar við heimahjúkrun og segir það ástæðu þess að hún ákvað að læra til sjúkraliða. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Eru einhverjir eiginleikar áberandi í fari eldri kynslóða sem eru kannski ekki jafn áberandi hjá yngri kynslóðum?

„Nægjusemi og einfaldleiki. Kannski er það eitthvað sem maður öðlast seinna á lífsleiðinni. Líka að fara vel með hlutina, það er ríkt hjá þeim. Fólk er kannski með 50 ára gamalt handklæði sem það er búið að hugsa vel um, maður sér það reglulega. Þetta er önnur kynslóð, fólk eignaðist bara sitt stell og lét það duga.“