Þórunn Þórs Jónsdóttir er einn af stofnendum Hampfélagsins, en samtökin standa fyrir ráðstefnu á morgun á Grand Hóteli þar sem kostir CBD-olíu og hampsins verða ræddir. Félagið var stofnað til að fræða og miðla þeim ávinningi sem hlýst af nýtingu hamps. Á ráðstefnunni koma fram erlendir og íslenskir sérfræðingar og miðla þekkingu sinni á plöntunni og nýtingu hennar.

Margvíslegir kostir

„Tilgangur félagsins er að fræða fólk og kynna því það sem er að gerast úti í heimi í þessum málum. Þetta er ein helsta nytjaplanta heims, þó að hún sé því miður enn bönnuð víða. En hún er alltaf að verða vinsælli og vinsælli í verkjastillingu og vegna annarra kosta sem neysla hennar hefur,“ segir Þórunn.

Hún segir samtökin berjast fyrir því að fólk hérlendis fái að nota olíuna við hinum ýmsu kvillum.

„Þetta er að breytast mikið í Evrópu og Bandaríkjunum. Nú má nota olíuna mun víðar í Evrópu ásamt Bandaríkjunum og Kanada.“

Ráðstefnan á morgun ber yfirskriftina Hampur fyrir framtíðina og á henni koma fram þrír erlendir ræðumenn og tveir íslenskir.

„Þeirra á meðal er dr. Stuart Titus, en hann er forstjóri Medical Marijuana Inc. Hann starfaði áður á Wall Street en kláraði síðan doktorsgráðu og stofnaði einkastofu þar sem hann sérhæfði sig í notkun örstrauma og stofnfrumumeðferða til að hjálpa sjúklingum með taugahrörnunarsjúkdóma, stoðkerfisvandamál og skemmdir í mjúkvefjum.“

Hamprækt í tilraunaskyni

Einnig kemur fram Pálmi Einarsson, iðnhönnuður og bóndi í Gautavík, en hann hefur rannsakað iðnaðar- og lyfjahamp í rúman áratug.

„Í sumar hófu hann og eiginkona hans ræktun á iðnaðarhampi í tilraunaskyni. Úr hampinum ætla þau meðal annars að framleiða trefjaplötur til að nota í vörur fyrirtækis síns í stað innflutts hráefnis.“

Á ráðstefnunni kemur einnig fram Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður AHC-samtakanna í Evrópu. AHC er gífurlega alvarlegur og erfiður taugasjúkdómur. Dóttir Sigurðar, Sunna Valdís, er eina manneskjan sem þjáist af sjúkdómnum hérlendis.

„Hún hefur notað CBD-olíu í tvö ár til að lina sársauka sinn með góðum árangri, en olían hefur einnig gert það að verkum að hún fær sjaldnar erfið flogaköst. Líðan hennar er gífurlega breytt og hún er ekki eins kvalin og hún var. Hún er komin með betri lífsgæði og hefur minnkað lyfjanotkun,“ segir Þórunn.

Margir vilja nýta sér olíuna

Þýski fréttaljósmyndarinn Maren Krings kemur einnig og verður með erindi.

„Við erum fyrst og fremst að fá fólk til að fræðast því það eru svo margir með fordóma fyrir þessari plöntu, en hampurinn inniheldur bara 0,3 prósent THC. Það þýðir að hann er ekki vímugjafi og því getur maður ekki misnotað hann á þann máta. Svo er hann líka algjörlega náttúrulegur. Það á einfaldlega að leyfa fólki að nýta sér þessa plöntu.“

Þórunn segist vita til þess að margir hérlendis hafi getað minnkað lyfjanotkun í kjölfar þess að þeir hófu að nýta CBD-olíu.

„Á CrossFit-móti í Bandaríkjunum um daginn voru CBD-básar úti um allt. Fullt af fólki sem keppir í íþróttinni nýtir olíuna og er mun fljótara að ná sér eftir æfingar við notkun hennar. Þarlends er litið á þetta meira eins og fæðubótarefni og hægt að kaupa olíuna á sumum líkamsræktarstöðvum til dæmis.“

Ein sjálfbærasta planta í heimi

Víða um Evrópu er svo í pottinn búið að fólk getur pantað sér olíuna til einkaneyslu þó að hún sé almennt bönnuð í landinu.

„Hérlendis má fólk ekki einu sinni panta sér eða taka með sér eina flösku til landsins. Við viljum ekki bara að almenningur kynni sér þetta heldur líka alþingismenn. Við stofnuðum samtökin því það er fullt af fólki sem er að nýta sér þetta á Íslandi og enn fleiri sem vilja fá að nota olíuna. Svo vilja margir líka vinna úr hampinum, þetta er ein sjálfbærasta planta í heimi. Það er hægt að nýta hana í margt og hún vex á bara fjórum mánuðum.“

Þórunn segir hana þurfa lítið vatn og framleiða meira súrefni en tré.

„Mér finnst bara lélegt af okkur að nýta ekki hampinn, það er hægt að nota plöntuna á svo margan hátt. Sérstaklega á þessum tímum þegar við þurfum að hugsa meira um hvað sé best fyrir landið okkar og framtíðina.“

Ráðstefnan fer fram annað kvöld klukkan 19.00 á Grand Hóteli og er aðgangur ókeypis.