Eigendur Brugghúss Steðja eru hjónin Svanhildur Valdimarsdóttir og Dagbjartur Arilíusson en bruggmeistarinn er Þjóðverjinn Philipp Ewers sem er mikill bjórmeistari. Það má því segja að hjónin séu með heldur óhefðbundinn búskap á jörð sinni en bærinn er um 5 km sunnan við Kleppjárnsreyki.

Þegar Dagbjartur er spurður hvað hafi komið til að þau settu upp brugghús á jörðinni svarar hann: „Við lifum bara einu sinni og viljum hafa svolítið gaman af lífinu. Við höfðum enga reynslu af svona framleiðslu og þess vegna réðum við þýskan fagmann sem sér um að brugga. Við erum á góðum stað í Borgarfirði og höfum upp á að bjóða heimsins besta vatn,“ segir hann.

„Við höfum allar götur frá stofnun reynt að vera lifandi brugghús, koma með nýjungar og hafa kjark til að prófa eitthvað nýtt. Samt gerum við strangar gæðakröfur og höldum jafnvægi í framleiðslunni. Allir okkar bjórar eru sykurlausir en það er eitt af okkar móttóum, heilnæmir bjórar, ef svo má segja,“ útskýrir Dagbjartur en nýjasta afurðin er bjórinn Hampur. Þar er notast við hamplauf sem verður að teljast merkilegt.

Brugghús Steðja er staðsett á sveitabæ í Borgarfirði. Þar líta dagsins ljós margvíslegir nýstárlegir bjórar. MYNDIR/AÐSENDAR

„Okkur þykir hampplantan mjög merkileg og við erum eini bjórframleiðandinn sem býður upp á bjór með hamplaufum. Þetta er planta sem hægt er að nýta 100% og hægt að rækta á Íslandi með nokkuð góðu móti. Því langaði okkur að prófa okkur áfram með hampinn í bjórgerð. Við gerðum nokkrar tilraunir með ýmis afbrigði af hampi, síðan lögðum við í stóra lögun af bjór sem er hannaður í kringum hamp. Bjórstíllinn er „pale ale“ og er bruggaður með sítrushumlum sem gefa ferskt sítrusbragð en það passar vel með bragðinu sem hamplaufin gefa. Þessi bjórstíll hefur verið í tísku undanfarin ár en er ekki allra samt sem áður. Okkar bjór hefur verið afar vel tekið. Hampur hefur einungis verið í sölu á vefverslun okkar, bjorbillinn.com, þar sem við sjáum sjálf um dreifingu og komumst í beint samband við kúnnana okkar,“ útskýrir Dagbjartur en hampinn fær hann frá ræktanda á Suðurlandi. „Við höfum mikla trú á hampinum og teljum hann hafa lækningamátt,“ segir hann og bætir við að alltaf sé eitthvað í gangi hjá þeim og nýjungar sífellt að líta dagsins ljós.

Þar sem bóndadagur er í dag er ekki annað hægt en að minnast á þorraölið frá Steðja sem nefnist Hvalur. Hann er séríslenskur og er kominn í dreifingu. Hvalur er líklega þekktasti bjórinn frá Steðja og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. „Næst verður það síðan páskabjórinn,“ segir Dagbjartur.

Venjulega hefur verið hægt að heimsækja brugghúsið og skoða framleiðsluna en sökum farsóttarinnar hefur verið lokað hjá Steðja. Móttaka ferðamanna var stór hliðargrein hjá þeim hjónum. Fólk fékk að smakka afurðirnar og vonandi styttist í að hægt verði að fara í heimsókn aftur.

Þegar Dagbjartur er spurður hvernig gangi að reka lítið brugghús í Borgarfirðinum, svarar hann: „Þrusuvel, sérstaklega eftir að við opnuðum vefverslunina okkar, bjorbillinn.com eða stedji.com.

Nánar á heimasíðunni stedji.com en hægt er að fylgjast með þeim hjónum á Facebook undir Brugghús Steðja.

Brugghús Steðja framleiðir margar gerðir bjóra, meðal annars sérstakan þorrabjór sem vakið hefur mikla athygi hér á landi sem annars staðar.