Starfsfólk fyrirtækja er gjarnan ósamstæður hópur fólks sem þó eyðir löngum tíma saman og tengist böndum sem stundum verða að ævarandi vináttu en í það minnsta notalegum kunningsskap og samfylgd í gegnum vinnuvikuna og stundum lífið sjálft. Hér gefast hugmyndir um hvernig hægt er að efla vinnuandann og gera hvern vinnudag að tilhlökkunarefni.

- Leiðin að hjarta mannsins er í gegnum magann. Því er fátt notalegra en heimabakað bakkelsi og ilmandi kaffibolli á nýjum vinnudegi. Þú getur verið viss um að vinnufélagarnir gleðjast yfir velgjörðum þínum á gráum hvunndagsmorgni, til dæmis ljúffengri súkkulaðimúffu og rjúkandi kaffi.

- Það er nauðsynlegt að standa reglulega upp frá vinnunni og fríska upp á hugann með því hreyfa sig úr stað og spjalla við vinnufélagana. Þá er gott að leika sér aðeins; hlaða batteríin yfir stuttri skák, slönguspili, skrafli með hléum eða spennandi fótboltaspili.

- Vingjarnlegir vinnufélagar gera alla daga betri. Bros og hjálpsemi, tillitssemi og hrós gera kraftaverk og er vitaskuld allt ókeypis og einfalt að gefa.

- Hvíldarhorn eru kærkomin þegar álag er mikið og endurnærandi að geta kúplað sig út úr asanum í fáeinar mínútur til að skýra hugsun og ná fram slökun og vellíðan.

- Kyrrseta hefur slæm áhrif á heilsuna og er vöðvabólga gjarnan fylgifiskur þess að sitja lengi við. Því er vel þegið að bjóða upp á heimsóknir nuddara á vinnustaðinn til að liðka lúnar axlir, bak og handleggi.

- Það eykur samkennd og tilhlökkun að stefna að einhverju saman. Til dæmis er hægt að setja endurvinnanlegar plastflöskur starfsfólksins í endurvinnslu og safna fyrir utanlandsferð eða helgarreisu til hópeflis.

- Stuttir göngutúrar í hádeginu eða samfundir utan vinnutíma þjappa vinnufélögum saman. Nú er aldeilis árstíminn til að fara saman á sveppa- og berjamó, og svo hægt að halda metnaðarfulla sultukeppni í vinnunni, með tilheyrandi smakki og ljúfum stundum.

- Óvæntur glaðningur á skrifborð starfsmanna eykur ánægju þeirra. Hann getur verið í formi bíómiða og bílastæðismiða, líkamsræktarkorts eða boðs á veitingastað, eða hvers sem er.