Kappaksturmaðurinn knái Lewis Hamilton spreytti sig á íslenskri torfæru á meðan hann dvaldi hér á landi í vikunni. Hann birti myndband af sér að bruna á torfærubíl á íslenska hálendinu á Twitter-síðu sinni. Hann segist „100 prósent“ ætla að koma aftur og hrósar íslensku náttúrunni fyrir fegurð sína.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í fyrradag að Hamilton væri á landinu, en hann lenti á Keflavíkurflugvölli í einkaþottu sinni á þriðjudagskvöld.

Hann birti mynd af hótelherbergi sínu þar sem hann fylgdist með leik Englands og Króatíu á heimsmeistaramóti karla í fótbolta, en Englendingar töpuðu leiknum í framlengingu.

Hamilton hannaði nýlega fatalínu fyrir bandaríska fataframleiðandann Tommy Hilfiger. Fatalínan samanstendur m.a. af nærfötum, skóm, fylgihlutum og fatnaði, og kynnir Hamilton fatalínuna óspart á samfélagsmiðlum sínum.

Ökuþórinn komst í fjölmiðla erlendis í síðustu viku fyrir orðaskipta milli hans og finnska kappakstursmannsins Kimi Raikkonen. Hamilton sagði Raikkonen hafa keyrt viljandi á sig í bresku Grand Prix keppninni, til að greiða fyrir liðsfélaga sinn hjá Ferrari, Sebastian Vettel. Hamilton keyrir sjálfur fyrir Mercedes Benz.