„Við fengum afhent í nóvember 2020 og fluttum inn í desember sama ár. Íbúðin hafði lengi verið í útleigu svo hún var orðin frekar sjúskuð. Það þurfti þó ekki mikið að gera áður en við fluttum inn annað en að mála og snyrta. Við pússuðum líka gólfin og olíubárum. Einnig hafði fatahengi verið innbyggt í eitt barnaherbergið svo við brutum það niður. Þá settum við upp vegg og skiptum upp stofunni svo allir heimilismeðlimir fengju sitt rými,“ segir Auður Ýr.

Íbúðin er að sögn Auðar skráð 67 fermetrar en þar sem stór hluti hennar er undir súð er gólfflöturinn yfir hundrað fermetrum. „Ég heillaðist strax af íbúðinni enda finnst mér risíbúðir alltaf svo sjarmerandi. Maðurinn minn var ekki jafnhrifinn í fyrstu enda er hann hávaxinn. En þetta gengur vel upp,“ segir hún.

„Það besta við íbúðina er andinn, myndi ég segja. Okkur líður vel hérna og stærðin og uppsetningin virkar vel fyrir fjölskylduna okkar. Staðsetningin er líka frábær. Það er stutt í vinnuna fyrir okkur bæði og krakkarnir geta labbað í rútuna sem fer með þau í skólann. Vinur okkar býr svo rétt hjá og mamma líka.“

Vildi liti á veggina

Auður vissi það snemma að hún vildi mála veggi íbúðarinnar. „Í gömlu íbúðinni máluðum við aldrei og var hún öll hvít nema einn veggur sem fyrri íbúi hafði málað. Mér fannst mjög leiðinlegt að búa í þrjú ár í húsi þar sem allt er hvítt og var staðráðin í því að setja alls konar liti á veggina í nýju íbúðinni. Það var líka eitt af því fyrsta sem við gerðum. Við völdum til dæmis skítugan bleikan inn í svefnherbergið. Sjálfa langaði mig í kokteilsósubleikan í stofuna, en maðurinn var ekki hrifinn af því, svo við gerðum samkomulag um að mála með hamborgarasósubleikum í staðinn, sem er ágætis millivegur.

Baðherbergið máluðum við fyrst dökkfjólublátt. En þegar við fengum gefins sinnepsgult klósett og handlaug í stíl fannst okkur litasamsetningin ekki passa nógu vel, svo við máluðum það skærgrænt í staðinn. Við leikum okkur mjög mikið með litina í íbúðinni og við málum alla veggina, ekki bara einn vegg í hverju herbergi. Á baðherberginu máluðum við líka loftið, en herbergið er undir súð. Það kemur mjög vel út,“ segir Auður.

Sinnepsgula klósettið kemur stórskemmtilega út með græna litnum inni á baðherberginu.

Hlutirnir birtast í lífinu

„Ég myndi segja að við séum bæði með frekar svipaðan stíl sem ég myndi lýsa sem hlýjum, skandinavískum bóhemstíl. Þegar maður byrjar að búa er svo auðvelt að kaupa bara allt í IKEA en fyrir nokkrum árum tókum við meðvitaða ákvörðun um að reyna hægt og rólega að skipta út IKEA-húsmunum. Við erum bæði hrifin af því að safna alls konar hlutum og einhvern veginn hefur flest það sem við höfum sankað að okkur verið frítt eða að minnsta kosti mjög ódýrt. Við leitum mikið í nytjamarkaði og kaupum notað á netinu, en annars eiga hlutir það til að birtast í lífi okkar og hér hefur ýmislegt safnast saman héðan og þaðan.“

Auður segist að sumu leyti fylgjast með innanhússhönnun. „Ég fylgi nokkrum Instagramreikningum, kaupi mér stundum tímarit um innanhússhönnun og fleira. Ég held að sú staðreynd að ég hafi alist upp í Waldorfskóla sem krakki hafi haft áhrif á stílinn minn. Það er ákveðin fagurfræði á bak við Waldorfstefnuna sem kemur líka inn í innanhússhönnun og snýst um að setja fókus á náttúruleg efni með mjúkar línur. Þetta hefur haft mikil áhrif á það hvernig ég vil hafa hlutina í kringum mig.“

Þeim skötuhjúum finnst skemmtilegt að gera fallegt í kringum sig og nýta hvert tækifæri til þess. Þessi fallega blúnda kemur vel út sem gluggatjöld í erfiðan en sjarmerandi glugga.

Persónuleg list

Á veggjum íbúðarinnar má sjá dágott safn af fallegum listaverkum sem Auður segir að séu mörg hver eftir listamennina í lífi þeirra. „Systir mannsins míns er til dæmis ljósmyndari og við eigum verk eftir hana. Svo er maður mömmu minnar listamaður. Við maðurinn minn kynntumst í menntaskóla og fórum saman út til Bandaríkjanna í framhaldsnám í listaháskóla. Þar skiptumst við oft á listaverkum við samnemendur okkar.

Auður segir að einn af sínum uppáhaldshlutum sé smámunahillan.

Uppáhaldsverkið mitt í augnablikinu er ofið veggverk sem ég fékk í afmælisgjöf. Svo held ég mikið upp á smáhlutahilluna þar sem ég á samansafn af alls konar pínulitlum hlutum sem mér þykir vænt um. Einnig elska ég eldgömlu ritvélina mína sem maðurinn minn gaf mér á fyrsta brúðkaupsafmælinu okkar. Hún virkar enn þá og hefur meðal annars verið notuð sem gestabók í brúðkaupi.“ Í stofunni stendur svo gullfallegt selló upp á rönd. „Ég held líka mikið upp á það. Stundum tek ég það fram og þykist kunna að spila á það,“ segir Auður sem lærði að spila á selló sem barn.

Auður lærði að spila á selló þegar hún var yngri og tekur það enn þá fram til að æfa sig.

Húsgögn og húðflúr

Nokkrir hlutir á heimilinu eru smíð eiginmanns Auðar Ýrar, Marinós, en þegar hann var í kvikmyndafræði í Bandaríkjunum tók hann valáfanga í húsgagnasmíði. „Hann smíðaði til dæmis fallega kommóðu sem við erum með í stofunni. Einnig smíðaði hann hillurnar í svefnherberginu, skrifborðið okkar, kolla og ýmislegt fleira. Hann hefur eitthvað verið að selja húsgögn sem hann smíðar en starfar annars hjá Minjavernd.“

Auður Ýr starfar sem húðflúrslistamaður á Íslensku húðflúrstofunni og hefur verið að húðflúra í sextán ár. „Ég lærði myndskreytingu í háskólanum í Bandaríkjunum með fókus á barnabókateikningu. Ég hef verið að gera verk fyrir barnabækur líka og nota grunninn í náminu í húðflúrslistina mína. Ég myndi segja að það sé ákveðin barnaleg og myndskreytingarleg tilfinning í teikningunum mínum,“ segir Auður að lokum.

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með húðflúrlistaverkum Auðar á Instagram: auduryrtattoo.

Stofan fékk girnilega andlitslyftingu með hamborgarasósulitum veggjum.